144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

vistvænar bifreiðar og fordæmi ríkisins.

[10:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ég hefði gjarnan viljað fá afdráttarlausara svar. Við erum að horfa fram á það núna að það er eiginlega að verða of seint að bregðast við. Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út í fyrra um loftslagsmál er beinlínis sagt að við stefnum hratt að því að valda óbætanlegum skaða á loftslaginu ef ekki verður strax dregið úr losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Vandamálið sem við búum við í vestrænum heimi er auðvitað að allir eru að bíða eftir að einhver annar geri eitthvað. Við viljum helst ekki breyta okkar lífsstíl og keyra um á kannski aðeins minni bílum. Reyndar eru til mjög flottir rafjeppar og tvinnbílar sem ég held að mundu fara ráðherrum ágætlega, þannig að það ætti ekki að vera vandamálið. Mér finnst áhyggjuefni að tveir nýir bílar sem hafa verið keyptir séu ekki umhverfisvænir. Ég kalla eftir því að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og móti skýrari stefnu og fylgi stefnunni.