144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að mér þykir heldur dapurlegt að við séum að hefja efnislega umræðu um málið undir þessum dagskrárlið. Af umræðunni má ætla að margir í þingsal geti ekki beðið eftir að umræðan sjálf hefjist og þess vegna hlýtur að mega stytta ræður um fundarstjórn forseta, sem hafa verið haldnar hér mörg hundruð nú þegar á þessu ári og er kominn tími til að draga aðeins úr umfangi þess liðar. Förum að taka málið sjálft á dagskrá.

Þetta mál snýst ekki um það að samninganefnd ríkisins hafi ekki haft umboð. Þetta mál snýst um það hvort hér séu komnar upp þær aðstæður að grípa þurfi inn í, m.a. til þess að koma í veg fyrir að ástandið í heilbrigðiskerfinu, eins og það er að verða inni á sjúkrastofnunum, haldi áfram að versna. Þeir sem vilja leggjast gegn þessu máli eiga þá að gera það á þeirri forsendu að þeir telji ekki að ástandið sé þannig á heilbrigðisstofnunum (Forseti hringir.) að þörf sé fyrir lög á verkfallið.

Vilji menn síðan taka hina umræðuna, sumir þeir sem leggja greinilega upp með það í umræðunni (Forseti hringir.) að fallast eigi á allar þær kröfur sem ríkið mætir við samningaborðið, þá skulum við taka hana þannig, (Forseti hringir.) en það er vel hægt að fara yfir það í nefnd nákvæmlega hvernig launaþróunin hefur verið hjá einstökum hópum, hvaða kröfur eru uppi og svo geta menn, hver fyrir sig, haft sína pólitísku skoðun á því. Ég heyri að sumir ætla að leggja upp með það að ríkið eigi alltaf að fallast á allar kröfur sem að því er beint.