144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:14]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Enn hengja menn sig í formið. Mér finnst þetta bara alvarlegra mál en svo að menn séu að hengja sig í formið, hver flytur þetta eða hver gerir hvað. Það minnist enginn á sjúklinga, það hefur enginn minnst á rétt sjúklinga. Menn hafa viðurkennt að staðan sé mjög alvarleg, (Gripið fram í: … að semja.) menn tala um mannréttindi, en ég spyr: Hvar eru réttindi sjúklinga? Ég hef ekki heyrt neinn minnast á réttindi (Gripið fram í: Jú.) sjúklinga. (Gripið fram í.)Er einhver hér í salnum, (Gripið fram í: Forseti.) (Forseti hringir.) sem er ekki sammála því að það sé neyðarástand í heilbrigðiskerfinu? Er ekki komið að því að við látum sjúklingana ganga fyrir? (Gripið fram í: Já, …) Eigum við ekki að hefja þessa umræðu (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) upp á hærra plan?

Menn hafa farið aðeins inn í umræður um málefni frumvarpsins. Eigum við ekki að taka málið á dagskrá? Ef menn hafa einhverjar breytingar á því fram að færa, eigum við ekki að reyna að sameinast um að gera þetta frumvarp á sem myndarlegastan hátt? (Forseti hringir.) Er ekki kominn tími til?