144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann ekki við að fara með umræðu um þetta mál niður á það plan sem hv. þingmaður var með það á. Ég veit ekki betur en að í nútímanum séu konur orðnar helmingur í læknastéttinni. Ég var við útskrift fyrir tveimur, þremur árum í Danmörku þar sem útskrifuðust einir sex eða sjö íslenskir læknar, allt stúlkur, konur. Ég held að við ættum ekki að vera að blanda þessu saman, ég verð að segja alveg eins og er. Hins vegar er líka alveg ljóst að um langa hríð hafa launakjör til að mynda hjúkrunarfræðinga verið of lág. Það þarf að taka á því, en það er ekki hægt að gera það án þess að taka tillit til annarra samfélagshópa í landinu, ekki frekar en í nokkrum öðrum samning. Þeir hljóta alltaf að snúast um það að við séum að fjalla hér um efnahagslegan stöðugleika þar sem við getum byggt upp samfélag þar sem við getum smátt og smátt aukið kaupmátt sem við erum reyndar að gera stórfelldar (Forseti hringir.) aðgerðir á á þessum árum. Svo hjó ég eftir því að hv. þingmaður sagðist ekki ætla að greiða atkvæði með þessari tillögu sem er þó mildileg og meðalhófsleið eins og ég útskýrði fyrir hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. (Forseti hringir.) Ég tók þó eftir því að hv. þingmaður sagði umhugsunarlaust já við að stöðva kjaradeilu á síðasta kjörtímabili.