144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, lagasetningin er ýtrasta úrræðið, algert neyðarbrauð í mínum huga, þrautaráð, algert þrautaráð. Þegar hér er nefnt að ég hafi beitt mér fyrir fundum þá er það form skárra heldur en að einhver einn standi og hrópi bara út í myrkrið. Á fundum gerast hlutir hvort sem okkur líkar það betur eða verr ef það er með einhverjum hætti undirbúið og skynsamlega sett fram. Fundir geta verið uppspretta góðra verka en sumir þeirra eru náttúrlega líka algerlega tilgangslausir eins og við þekkjum sennilega öll hér inni.

Varðandi mönnunarvandann höfum við, þ.e. ráðuneytið, verið í samstarfsverkefni með embætti landlæknis til að reyna að gera okkur einhverja mynd af því sem bíður okkar og reyna að vera í færum til þess að mæta helstu áskorunum í mönnun íslenska heilbrigðiskerfisins á næstu árum. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um það á hvaða stað sú vinna er stödd en við erum í verkefni einmitt á þessum lendum sem hv. þingmaður spyr um.