144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er fyrst og fremst vegna þess að vinnumarkaðurinn hefur ekki verið tilbúinn til að koma að því borði. Það er meginskýringin, það er aðalsvarið sem ég get boðið upp á. En við höfum lýst eindregnum vilja til þess, það skein í mjög ákveðinn vilja til þess í skýrslum sem aðilar vinnumarkaðarins gáfu út, ég vísa til skýrslunnar Í aðdraganda kjarasamninga. Ég vísa til alls þess sem hefur komið fram þar og hefur síðan verið staðfest á samráðsvettvangi okkar um aukna hagsæld þannig að menn eru byrjaðir að tala sig inn á þessa braut, en þegar kemur að því að ganga til verksins að binda þetta saman með skuldbindingum þá hefur staðið á vinnumarkaðnum.

Viðhorfið er kannski fyrst og fremst þetta hér: Þetta er góð hugmyndafræði til framtíðar en áður en við förum í þetta módel þá þurfum við bara að fá leiðréttingu fyrir okkur fyrst. Það þarf bara fyrst að leiðrétta misgengi fyrir mína stétt. Svo skulum við gera þetta. Þá kemur næsti og segir: Já, einmitt, kannast við þetta, það þarf líka að leiðrétta misgengið fyrir okkar stétt. Það eru bara þessi 15% eða 20. Það þarf fyrst að laga það, svo skulum við gera þetta. Og þá erum við föst í sama farinu.