144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson er orðinn sérfræðingur í fleiru en heilbrigðiskerfinu. Ég tek eftir því að hann er orðinn sérfræðingur líka í ályktunum landsfunda Sjálfstæðisflokksins. Ég veit ekki hversu holl lesning það er fyrir ungan þingmann að liggja of mikið í slíkum plöggum. Ég kýs sjálfur að lifa lífi mínu eftir öðrum stefnumiðum en þar birtast, en ég er sammála þessu. Við eigum að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Ekkert hefur sýnt jafn vel hversu mjög það rímar við þjóðarsálina eins og merk könnun sem var gerð að undirlagi hv. þingmanns í fyrra, þar sem 91,4% þjóðarinnar virtust vera sammála því.

Það sem skiptir máli, finnst mér, í þessu er: Hvernig ætla menn að skiljast við þetta mál? Við skulum bara segja að þetta frumvarp verði samþykkt, verði að lögum og það náist ekki saman fyrir 1. júlí. Svo kemur gerðardómur. og hann fer eftir þessari forskrift, sem er hræðileg.

Ég spái því að það muni leiða til þess að heilbrigðisstarfsmenn, þeir sem sérhæfðir eru, muni unnvörpum leita sér viðfangs annars staðar. Þeir munu hleypa heimdraganum alveg eins og læknar gerðu. Og þetta leiðir til þess þegar fram í sækir, alveg eins og landlæknir varar við í sínu minnisblaði, að það verði mannekla í þessum greinum og við séum að skapa vandamál til frambúðar. Og hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra, forsætisráðherra og hvað þeir nú allir heita, hvernig ætla þeir að bregðast við því? Með öðrum orðum, ég er ekki að segja að þetta sé eins og að pissa í skóinn sinn, en þetta er skammgóður vermir. Jafnvel þó að deilan sé leyst með handafli þá mun það skapa svo mikla óánægju og sorg, depurð hjá þeim sem eru á hinum endanum að það mun leiða til þess að besta fólkið sem er á besta aldrinum leitar bara burt.