144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:46]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að ræða við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson um gjaldmiðlamál eða verðbólgu eða neitt slíkt. Ég er aðallega að velta fyrir mér: Við erum í ákveðinni stöðu. Hér er verkfall, hér eru líf og limir í hættu sem við metum meira en allt annað í þessu landi, er það ekki? Hvenær er þá forsenda fyrir þessu, ef ekki nú?

Hinn möguleikinn er auðvitað að segja: Við göngum bara fullkomlega að kröfum þeirra sem eru í verkfalli. Hv. þingmaður er væntanlega að segja að við eigum bara að ganga að þeim kröfum að fullu. (Gripið fram í.) Það er einmitt búið að tala við alla.

Nei, þetta er ekki boðlegur málflutningur að mínu viti. Þá eiga menn bara að segja: Við eigum að ganga að þessum kröfum, sama hvað það kostar, hvort sem það kostar verðbólgu, smáa eða stóra, sama hvaða áhrif það hefur á allt samfélagið. Það vita allir að það gengur auðvitað ekki. Við skulum því bara afgreiða þetta mál út frá almannahagsmunum, þeir eru augljósir. Síðan getum við séð hvað hægt er að gera í kjarabótum almennt fyrir fólkið í landinu.