144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Núna þegar er áliðið kvölds og bæði hæstv. ráðherra og fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands eru í salnum þá er kannski hægt að fara að koma sér að kjarna málsins. [Hlátur í þingsal.] Mér finnst það mjög hreystilega mælt hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni þegar hann var að siða til hinn ágæta pírata, hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, og halda yfir honum einhverja fyrirlestra um verðbólgu. Ja, herra trúr, er ekki hv. þingmaður nýkominn af fundi í Valhöll með formanni sínum sem var haldinn beinlínis til að ýta undir það að borgarar þessa lands gætu vænst skattalækkana? Hvað er líklegt til að ýta undir þenslu og verðbólgu ef ekki slík sköpun væntinga? Hv. þingmaður, sem er ábyrgur og vel að sér um fleira en bara lagaspeki, hlýtur að vera mér sammála um það. Hann kinkar kolli því til samþykkis.

Það eru örfáar spurningar sem ég hef til hæstv. ráðherra. Þær eru ekki margar, en mig langar að fá það á hreint af hverju hæstv. ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála flytur þetta mál. Þegar maður les 1. gr. eru talin upp 17 stéttarfélög og tvö þeirra tengjast honum að einhverju leyti, Dýralæknafélag Íslands og Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði. Ég spyr hæstv. ráðherra bara beint út: Er það rétt sem fram hefur komið í fjölmiðlum að það hafi verið átök millum ráðherra af því að þeir vildu ekki flytja málið? Ég ítreka hrós mitt til hæstv. ráðherra fyrir þá víkingslund sem hann sýndi.

Mér finnst að hv. þm. Brynjar Níelsson sem hefur fullkomlega lögmætar skoðanir á verkföllum, sem ég er á móti, eigi einfaldlega að segja það sem býr honum í brjósti. Það er ekki hægt að lesa mál hans öðruvísi en svo að hann sé á móti því að stéttarfélög geti háð vinnudeilur sínar með því að nýta sér þann part samningsfrelsisins sem verkfallsrétturinn er. Það er alveg sjónarmið. Flokksbróðir minn í Svíþjóð, Göran Persson, gat sér orð fyrir slíka lagagerð þegar hann var fjármálaráðherra. Ég held að það sé ekki farsælt.

Ég er þeirrar skoðunar að menn verði að vanda mjög vel alla gerð laga sem miða að því að binda enda á verkföll. Ég er efins um að þetta frumvarp standist þau próf að öllu leyti. Ég get alveg fallist á þau rök að við vissar aðstæður sé óhjákvæmilegt að beita lögum þegar líf og limir og hugsanlega mjög miklir efnahagslegir hagsmunir eru undir.

Hv. þm. Brynjar Níelsson vísaði til minnisblaðs hins ágæta landlæknis, en hvað segir hann í lokum þess? Það er ekki birt í greinargerðinni. Hann óttast að þótt lyktir verði með lögum þá verði það ekki endapunkturinn, það þurfi að halda áfram viðræðum til að koma í veg fyrir að kerfið haldi áfram að grotna niður.

Stjórnarskráin veitir samningsfrelsi og þar með verkfallsrétti töluvert mikla vernd. Það hafa komið fram dómar bæði heima og erlendis sem segja að sú vernd sé jafn rík því sem er nú í frægri 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þar koma ákveðin skilyrði fram. Ég velti því fyrir mér hvort andlag þessara laga, sem eru alls konar félög þar sem sannarlega eru hvorki líf, limir né efnahagslegir hagsmunir í hættu, geti gengið upp. Mín lógík er sú, frú forseti, að ef einhver partur laganna stenst ekki þá séu þau öll fallin. Ég óttast að ef þetta verður tekið til dóms þá geti það leitt til þess að gerningurinn standist ekki. Það er til dæmis verið að koma í veg fyrir einhvern glundroða eða að almannahagsmunir séu fyrir borð bornir með því að setja lög á stéttarfélag leikara, á starfsmenn Sinfóníunnar, á bókasafnsfræðinga og hugsanlega á félagsráðgjafa við einhverjar aðstæður. Ég gæti talið upp allnokkur félög og kemst að þeirri niðurstöðu að fyrir dómi mun þetta ekki standast. Miðað við dómaframkvæmd, túlkun á alþjóðlegum skuldbindingum og sömuleiðis hér heima, ég vísa bara í dóminn frá 2002, málarekstur ASÍ og ríkisins, þá dreg ég í efa að allt (Forseti hringir.) þetta standist, jafnvel þó að hv. þm. Brynjar Níelsson hafi rétt fyrir sér (Forseti hringir.) varðandi heilbrigðisstéttirnar.