144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[22:04]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur svo gaman af því að æsa mig upp í ræðupúltið og spurði mig þeirra spurninga hvort ég teldi rétt að þessar stéttir hefðu yfir höfuð verkfallsrétt vil ég segja að ég met þennan rétt mikils, en ég geri jafnframt kröfu til þess að vel sé farið með hann. Ég á mjög erfitt með að skilja það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að hópar sem sömdu síðast og hafa fengið meiri kaupmáttaraukningu úr þeim samningum en þeir reiknuðu með skuli síðan beita verkfallsvopninu þegar samningum lýkur.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Finnst honum þetta eðlileg notkun á verkfallsréttinum? Er hann ekki sammála mér í því að þetta sé einhvers konar neyðarréttur eða telur hann að þetta sé bara almennur réttur sem menn geti notað þegar þeim sýnist? Umræðan hefur alltaf verið þannig að verkfallsrétturinn er notaður aðeins í neyð. Er það neyðarréttur þegar menn gera kröfu um 30–100% kauphækkun í einu lagi og beita verkfallsvopninu? Ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé sammála því að það sé eðlileg beiting á verkfallsvopninu og verkfallsréttinum. Ef mönnum finnst það finnst mér það koma til endurskoðunar hvort þær stéttir sem hér eru og teljast til grunnstoða samfélagsins hafi yfir höfuð slíkan rétt ef honum er beitt með þeim hætti hér eftir eins og verið hefur hingað til.