144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek undir það, ég held að málinu hafi alltaf verið ætlað í þennan farveg, því miður. Það lýsir sér best í því að það eiga sér stað margir fundir en það virðist ekki vera neinn samningsvilji. Gerðardómur fær auðvitað fyrirmæli eins og við höfum farið yfir. Af hverju var ekki bara skrifað inn í lögin eins og nefnt var: Miðað við samninga sem samþykktir voru hjá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ? Það liggur við að það megi nánast gera það vegna þess að hér er bara það undir og ekkert annað. Það er mjög óeðlilegt að þetta sé gert með þessum hætti.

Hvað varðar meðalhófið þá teljum við svo alls ekki vera, langur vegur frá því. Það lýsir sér kannski líka í því að þegar við höfðum lokið umfjöllun í nefndinni í morgun þá var nefndarálitið bara tekið út í beinni beit. Það var augljóslega aldrei ætlunin að hlusta, nema þá kannski á þá úr ráðuneytinu, það var helst það. Það var aldrei ætlunin að hlusta á það sem fram kom af hálfu þeirra sem komu til fundar við nefndina. Það finnst mér afskaplega dapurlegt. Það sýnir mér í rauninni enn frekar að tilgangur lagasetningarinnar er sá að fólk er eiginlega búið að gefast upp, þ.e. að ríkið hefur gefist upp á verkefninu. Í staðinn fyrir að vita að það þarf að leggja til einhverja útfærslu, einhverja fjármuni þá ákveður ríkisstjórnin: Förum auðveldu leiðina. Þeim finnst sú leið augljóslega ekki erfið ef það er ekki einu sinni hlustað á fólk sem kemur á nefndarfundi áður en álit er skrifað.