144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

lög á kjaradeilur.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Umræðunni um frumvarpið lauk á laugardaginn þannig að ég ætla ekki að (Gripið fram í.) fara að endurtaka hana hér. Hún fór fram þá, og með frumvarpinu sem lagt var fram fylgja röksemdir sem svara öllu því sem hér er borið á borð. Þessi umræða verður ekki endurtekin í stuttum fyrirspurnatíma.

Staðreyndin er sú að Samfylkingin hefur ekkert haft fram að færa í kjaramálum opinberra starfsmanna frekar en annarra annað en það að þykjast vilja allt gera fyrir alla og tekur undir allar kröfur allra sem fara í verkfall eða hóta verkfalli. (Gripið fram í.) Þegar læknar voru í verkfalli var alltaf komið hingað upp og sagt: Semjið bara við læknana, ykkur ber skylda til að semja við læknana. Það skiptir ekki máli hver krafan er, þið verðið að semja við læknana.

Nú er látið að því liggja að menn hafi samið við læknana um eitthvað sem ekki er hægt að láta aðra hafa. Í þessu tiltekna máli, ef menn vilja vita það, hefur ríkið boðið hjúkrunarfræðingum um það bil 20% hækkun á næstu árum. Ég get fullyrt að laun hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum eru ekki að fara að hækka um (Forseti hringir.) þær fjárhæðir. Það er langt í land með að jafna kjörin en það gerist ekki í einum samningi. Við getum boðið verulegar kjarabætur og við getum boðið meiri stöðugleika en gilt hefur, en það er ekki hægt að fallast á allar kröfur.