144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

úrvinnslugjald.

650. mál
[18:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að hafa farið ákaflega ítarlega yfir þetta frumvarp. Ég verð samt sem áður að segja að ég er svolítið óánægður með þessa breytingu. Mér finnst hún ekki vera mjög ítarlega skýrð í greinargerð, sem hv. þingmaður vék nú varla frá. Eftir því sem ég best veit þá er það þannig að nánast ekkert af fiskúrgangi fer til förgunar eða lendir með einhverjum hætti í umsjá sveitarfélaganna, heldur má heita að nánast allur fiskúrgangur fari til einhvers konar meðhöndlunar sem hægt er að segja að sé endurnýting eða úrvinnsla. Ég fæ því ekki alveg séð þau sterku rök sem liggja að því að mikilvægt sé að bæta við fjölda þeirra sem eru í stjórn Úrvinnslusjóðs, bara til þess að verða við kröfum utan úr bæ. Menn höfðu áður tekið þátt í því að breyta stjórninni, fulltrúar sveitarfélaganna fengu eðlilega tvo og væri ekkert skrýtið þótt þeir fengju þrjá og ekkert að því, tel ég, að ríki og sveitarfélög hefðu sameiginlega meiri hluta í þessu.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Er það þá skoðun nefndarinnar að af því að Samtök atvinnurekenda telja að þau eigi að fá meiri hluta eigi að hlaupa til af hálfu þingsins og fjölga í stjórn? Mér finnst það vera ákaflega skrýtin afgreiðsla á málinu, svo ég segi ekki meira. Með leyfi að spyrja: Hvað eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að greiða mikinn kostnað vegna þessa? Ég held að það sé ákaflega lítið. Ég get alveg fyrirgefið hv. þingmanni að hafa ekki svör á reiðum höndum við því, en mér hefði fundist að þeir sem standa að þessu frumvarpi hefðu átt að láta það koma fram.