144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

úrvinnslugjald.

650. mál
[18:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég get ekki annað en hrósað hv. þingmanni sem hafði framsögu fyrir þessu nefndaráliti fyrir það hversu vel honum tókst að svara spurningu sem í eðli sínu var töluvert flókin. Eins og ég skildi svar hv. þingmanns var það í eðli sínu þannig að á sínum tíma þegar Evróputilskipunin sem þetta byggist á var innleidd hér 2002 hefði verið að mati þeirra sem túlkuðu tilskipunina áður en hún var innleidd í íslensk lög talið mikilvægt að framleiðendur og atvinnulífið hefðu meiri hluta í Úrvinnslusjóði. Síðan hafi það gerst í tímans rás að einhverjir og að því er ég taldi framleiðendurnir sjálfir sem tengdust sjávarútvegi hefðu talið sig hafa samið sig frá því að verða seldir undir Evróputilskipunina. Það er vitaskuld hægt að skýra af hverju þeir gerðu það, vegna þess að þar með vörpuðu þeir af sér skyldunni sem í tilskipuninni felst um að þeir eigi að bera kostnað af förgun og fyrirkomulagi úrgangs. Við þetta var talið að annar aðili sem kemur mjög mikið líka að því með hvaða hætti úrgangi er fyrir komið, þ.e. sveitarfélögin, fengi tvo fulltrúa. Þegar þetta var ákveðið með samkomulagi í umhverfis- og samgöngunefnd voru allir því sammála. Þá taldi enginn að þetta stæðist ekki Evróputilskipanir. Ástæðan, tel ég, var ákaflega einföld. Ef maður skoðar gögn kemur í ljós að á síðustu tíu árum hefur góðu heilli aukist verulega það hlutfall sem sjávarútvegurinn þarf að farga, urða, brenna eða með öðrum hætti koma fyrir vegna þess að meðal annars sökum lagasetninga hér á hinu háa Alþingi, ekki síst lögum sem samþykkt voru í tíð síðustu ríkisstjórnar árið 2011, er miklu meiri skylda á þeim sem eru í sjávarútvegi að vinna sem mest úr því sem fellur til. Þetta var ástæðan fyrir því að ekkert var að því að valdavæginu innan stjórnar Úrvinnslusjóðs væri breytt vegna þess einfaldlega að framvinda tímans og þróun úrvinnsluiðnaðarins hafði leitt til þess að þar sem áður var stærstur hlutur í umsjón framleiðenda á markaði var mest ábyrgð á úrvinnslu og förgunarferli komið í hendur sveitarfélaganna.

Meginbreytingin sem olli þessu var vitaskuld sú að fyrir nokkrum árum var innleidd hér enn önnur tilskipun um förgun umbúða, svokölluð umbúðatilskipun, sem hafði alveg gríðarlega miklar og auknar skyldur í för með sér að því er sveitarfélögin varðar. Þetta tel ég að hafi verið ástæðan fyrir því að á sínum tíma þegar fyrri breytingin var gerð á stjórninni þá töldu menn að það væri alls ekkert athugavert við það. Þá var einfaldlega sú staðan komin upp varðandi úrvinnslu, endurvinnslu og úrvinnslugjaldið að talið var að það væru sveitarfélögin og ríkið sem bæru stærri hluta ábyrgðar á ferlinu öllu heldur en áður og þess vegna væri ekkert að því að þau hefðu þess vegna líka meiri hluta og stjórnin væri skipuð með þeim hætti að atvinnulífið ætti ekki meiri hluta.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé viðurhlutamikið af hv. umhverfis- og samgöngunefnd að gera þessa breytingu rétt sisvona. Auðvitað dreg ég það ekki í efa að þarna hafa hugsanlega einhvers konar rangar upplýsingar farið á milli. En ég get ekki tekið undir það sem hv. þingmaður orðaði hérna áðan, að þetta hefði verið samþykkt undir fölsku flaggi. Ég tel ekki að svo hafi verið gert. Enn síður er ég þeirrar skoðunar að þegar samtök, reyndar tvenn samtök sem tengjast sjávarútvegi, telja sig hafa samið sig undan ábyrgð sem hafði kostnað í för með sér en vilja nú breyta til fyrri vegar, þá nægi að senda bréf til viðkomandi nefndar Alþingis. Ég vil því, herra forseti, gera allan fyrirvara á stuðningi mínum við þetta.

Þegar við reyndum árið 1994 að setja lög um að skylda fyrirtæki í sjávarútvegi og útgerðir til að koma með allan afla að landi mætti það mikilli fyrirstöðu. Ég minnist þess þó að þau lög voru sett af ríkisstjórn sem ég tók þátt í þá. Árið 1996, þegar ég var reyndar kominn út úr þeirri ríkisstjórn, voru þau lög afnumin. Það var meðal annars gert vegna þess að settar voru svo harðar kvaðir á sveitarfélögin um að koma fyrir þeim úrgangi að fyrirtæki í sjávarútvegi áttu einfaldlega erfitt með að bera þann kostnað sem af því hlaust. [Háværar mótorhjóladrunur berast frá götu.] — Ég heyri, hæstv. forseti, að hér er almenningur úti að fagna þessari góðu ræðu minni sem verður til þess að ég heyri varla mín eigin orð.

(Forseti (EKG): Forseti vill taka það fram að hann telur að bjöllusláttur við þessar aðstæður mundi ekki nægja til þess að þagga niður í þessum mótorhjólum.)

Enn sem fyrr er ég sammála hæstv. forseta og tel að mat hans á því hvernig geta hans til að grípa inn í atburðarásina sé hárrétt. Og hyggst ég þá freista þess að halda áfram ræðu minni.

Það sem ég var að segja, herra forseti, var að árið 2011 voru menn komnir í það að safna um það bil 110 þús. tonnum af fiskúrgangi sem fór til meðhöndlunar og meiri hlutinn af því, eða 97,6%, fór í endurvinnslu. Þarna hef ég hoppað fram í tímann um næstum því 20 ár. En á þessu skeiði hafði það sem sagt gerst vegna í fyrsta lagi Evróputilskipana sem við þurftum að innleiða í okkar rétt, í öðru lagi vegna aukinnar meðvitundar íslensks almennings um að nýta allt sem til fellur úr sjó og í þriðja lagi vegna þess að sveitarfélögin voru farin að leggja mikinn þrýsting á það, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum við ströndina, að fyrirtæki í sjávarútvegi færu betur með þann úrgang sem að landinu kom. Þetta leiddi til þess að árið 2011, þ.e. 15 árum eftir að lögin sem ég nefndi hér að hefðu verið samþykkt í þeirri tíð sem ég var umhverfisráðherra voru felld úr gildi af nýrri ríkisstjórn, þá eru málin breytt þannig að 97,6% af öllum þeim fiskúrgangi sem til fellur fer í endurvinnslu. Hann fer í fiskimjöl, hann fer í loðdýrafæðu eða í kítosanframleiðslu úr rækjuskel.

Þá rifja ég það upp fyrir þeim ágæta þingmanni sem ég hef miklar mætur á sem talaði hér áðan um tildrög þess, þeirra þarf nú ekki að leita í Evrópusambandinu, nei, það var einmitt sá umhverfisráðherra sem hér var nefndur til sögunnar áðan sem setti í reglugerð að fyrirtæki eða sveitarfélög hefðu heimildir til þess að heimta fé til að hafa upp í þann kostnað sem þau höfðu af því að farga rækjuskelinni. Allt leiddi þetta til þess að árið 2011 vorum við sem sagt komin í þann stað að það er bókstaflega ekki neitt sem ekki er endurnýtt með einhverjum hætti.

Auðvitað er það þannig að þó að hlutfall fiskúrgangs sem fer til meðhöndlunar sé orðið hátt þá er það hins vegar svo það leysir ekki öll mál til framtíðar vegna þess að töluvert vantar enn þá upp á það að allur fiskúrgangur komi inn í kerfið og sé meðhöndlaður með réttum hætti. Þá rifja ég það upp, sem ég veit að umhverfis- og samgöngunefnd hefur örugglega skoðað mjög vel í sinni fínu og vönduðu umfjöllun, að 1. september 2011 tók gildi reglugerð. Ég veit að hæstv. forseti sem situr fyrir aftan mig og er fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og gegndi því starfi með miklum sóma hefur örugglega fylgst með því. Hann veit að þetta er reglugerð nr. 180/2011. Hún er einmitt um það hvernig útgerðir eru skyldar til þess að koma með allan úrgang frá veiðum í land í mun meira mæli en áður. Þetta er reglugerð sem mörg okkar börðumst fyrir árum saman um nýtingu afla og aukaafurða. Og þessi góða reglugerð árið 2011 hefur enn frekar stuðlað að bættri nýtingu, auk þess sem nýir möguleikar hafa síðan opnast í nýtingu og endurvinnslu fiskúrgangs.

En þó getur þetta, og það eru kannski lóð á vogarskálar þess málstaðar sem ég er að andmæla hér, hins vegar leitt til þess að hlutfallslega meiri úrgangur verði urðaður en áður.

Punctum saliens í þessu er að ég fæ ekki betur séð en að andlagið við það að þessi fyrirtæki fái aftur fulltrúa í stjórn Úrvinnslusjóðs og þingið rjúki upp til handa og fóta til að breyta samsetningu stjórnarinnar sé allmiklu rýrara í dag en það var áður, nema þá hv. þingmaður leiðrétti mig eða einhverjir þeir aðrir sem þekkja þetta betur, vegna þess að mér sýnist að það sem framleiðandaábyrgðin nær til, kostnaður vegna þess hluta fiskúrgangs sem ekki er endurnýttur, sé alltaf að minnka.

Þá spyr ég: Eru einhver sérstök föng til þess að fulltrúar úrgangsflokks sem verður æ minni í umsýslu ríkis og sveitarfélaga hvað urðun og fyrirkomulag varðar, að hann fái allt í einu sérstakan fulltrúa og að fjölga þurfi í stjórninni? Hvað segir formaður VG um það mál? Eða fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Ekki það að ég ætli að krefja nokkurn mann til svara um þetta.

Ef við værum sanngjörn og ættum að reyna að meta presentasjónina, með leyfi forseta, í stjórninni út frá hlutfalli þeirra úrgangsflokka sem undir eru, þá sýnist mér að það þyrfti að fjölga allmjög í stjórninni til þess að sveitarfélögin fengju þar vægi í hlutfalli við þessa tegund úrgangs.

Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa alltaf staðið vörð um úrvinnslugjaldið, alltaf staðið vörð um endurvinnslu og margoft á fyrri árum hafa menn reynt að lækka gjöldin á hina ýmsu flokka, reynt að breyta þessu, vegna þess að í upphafi máls var staðan þannig að fyrirtækin höfðu ekki nokkurn einasta áhuga á því að taka þátt í þessu. Þróunin hefur sem betur fer verið svo að hér á Alþingi hefur setið fólk sem hefur haft framsýni til að bera til að fara akkúrat hina leiðina. Ég hef verið í þeim flokki. Ég minnist þeirra mörgu átakadaga og átakakvelda hér í þessum þingsal þegar á sínum tíma var tekist á um úrvinnslugjald á heyrúlluplastið, á veiðarfæri, á hjólbarða. Herra trúr, í dag er þetta undirstaða lítilla fyrirtækja sem hafa sprottið upp og skapað verðmæti. Mér er því málið skylt. Ég var einn af þeim sem tóku þátt í að koma þessu af stað og ég ætla mér að standa vörð um þetta.

Ég tel að þetta séu svo mikilvægir hlekkir í þessari úrvinnslukeðju að mér finnst ekki að við getum gengið kæruleysislega um þetta og menn geti bara breytt stjórninni af því að óskað er eftir því úti í bæ. Ef einhver er mér ósammála vildi (Forseti hringir.) ég gjarnan fá rökin fyrir því, til dæmis hv. þm. (Forseti hringir.) Páll J. Pálsson, sem ég veit (Forseti hringir.) að hefur skoðanir á þessu.