144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[19:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki þann sið að vaða hér upp um athugasemdir um dagskrártillögur minni hlutans hér á þingi til þess að útskýra eða fara yfir mál, en mér er ofboðið. Þessi endemis þvæla sem menn vaða hér upp með hver á fætur öðrum og virðast skemmta skrattanum og svo hlæja menn úti í sal, þetta er ekki samboðið þinginu. Þegar menn fara síðan að tala um að þetta hafi aldrei gerst áður en rifja samt upp að einhvern tímann hafi nú þetta verið gert og nú eigi að passa t.d. starfsmenn þingsins þá er það alveg rétt. En sumarið hér 2009, af því að það hefur verið rifjað upp, var starfsmönnum þingsins ekki einu sinni gert viðvart á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi að það yrði frí vikuna þar á eftir. Það var eina frívikan það sumarið. Þannig að ég held að menn ættu að hugsa sig um áður en þeir vaða hér upp til að gera grín að einum stjórnmálaflokki. Er það nú þannig að það sé búið að semja milli stjórnarmeirihluta (Forseti hringir.) og minni hluta? Nei. Þegar minni hlutinn kom hér upp bauð hann átta mál, átta mál sem Framsóknarflokkurinn gat klárað. Átta mál. Það (Forseti hringir.) þarf að semja. Það þarf traust. Og menn ættu að hætta að tala svona hver til annars eins og hér hefur verið gert í dag.