144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

orð þingmanna í garð hver annars.

[14:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að óska eftir því að hæstv. forseti ásamt forsætisnefnd fundi um þær aðdróttanir sem hér hafa komið fram um skipulagt einelti af hálfu ákveðinna þingmanna, það var nú ekki nafngreint þó að einn hv. þingmaður hafi hér verið svo ósmekklegur að væna annan hv. þingmann persónulega um að tala niður til fólks. Ég óska eftir því að forsætisnefnd fari yfir þetta mál, kanni hvort þetta sé rétt, því þetta eru þöggunartilburðir, það er algjörlega óþolandi, hæstv. forseti, að sitja undir því að málefnaleg gagnrýni minni hlutans í þinginu sé sett í einhvers konar eineltisbúning. (Gripið fram í.) Ég tel að það þurfi að fara fast í þetta mál. Ef það er svo að hér sé verið að beita einelti þá er eins gott að það komi upp á yfirborðið, enda eru lög um að það eigi ekki að viðgangast.