144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má svo sem alveg segja að málið sé í ákveðnu uppnámi hjá okkur og það að hæstv. ráðherra hefur ekki og var ekki tilbúinn til þess að gefa skýr svör að öðru leyti en því að hann mundi koma með frumvarp að hausti. Það er eins og ég sagði áðan kannski okkar í allsherjar- og menntamálanefnd, og af því að formaðurinn situr jú hér heyrir hún þetta sjónarmið okkar, mitt alla vega, að ýta á eftir því. Ég veit að hún vill ekki frekar en ég standa í þessum sporum aftur að þurfa að flytja svona mál. Eins og ég sagði áðan var engu okkar ljúft í nefndinni að þurfa að flytja þetta af því að við vildum auðvitað að ráðherrann væri búinn að leysa þetta mál.

Það sem ég hef haft áhyggjur af, og það hafa komið fram svör og skýringar við því, er að enginn fulltrúi frá tónlistarskólunum er í þessari nefnd. Mér hefur fundist vera ástæða til þess. Þrátt fyrir að þetta sé samkomulag um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er þarna um að ræða mikla hagsmuni fyrir tónskólasviðið og ég hefði haldið að það gerði málinu meira gagn að hafa þar einhvern inni frá tónlistarskólunum. Það hefur verið fóðrað með því að þess þurfi ekki af því að þetta sé verkaskiptingin, eins og hv. þingmaður nefndi, um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi þennan málaflokk.

En það þarf líka stundum að koma inn hinu akademíska eða hinu faglega sjónarhorni. Það kemur fyrst og fremst frá þeim sem um málið véla, þ.e. þeim sem eiga að sinna því, eins og í þessu tilliti fulltrúar tónlistarskólanna. Ég hefði viljað sjá þá í nefndinni því ég tel að niðurstaðan verði best ef þeir aðilar sem þurfa síðan að vinna eftir því samkomulagi sem gert er séu aðilar máls. Nákvæmlega eins og ég sagði með 30 milljónirnar eða 60 sem þær verða hérna varðandi varasjóð húsnæðismála, að ef sveitarfélögin hefðu sinnt hlutverki sínu hvert og eitt, sem (Forseti hringir.) þau gera ekki, þau láta sambandið sjálft um það, þá hefðu þau staðið betur að vígi.