144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur legið fyrir af minni hálfu allt frá því ég gegndi embætti ráðherra að ég hef ekki verið sammála túlkun Reykjavíkurborgar á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga enda hefur lögum um tónlistarskóla ekki verið breytt. Ábyrgðin á verkefninu liggur hjá sveitarfélögum. Fram hjá því er ekki hægt að horfa. Ég hef hins vegar sagt að mér hefði fundist eðlilegt að við skoðuðum þessa skiptingu. Upphaflega var skoðun mín sú að það væri eðlilegast að ríkið tæki ábyrgð á framhaldsstiginu, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi, og sveitarfélög sæju um leik- og grunnskólastig. Það var niðurstaða mín eftir að hafa skoðað þetta mál með sveitarfélögum, hagsmunaaðilum, tónlistarskólum, kennurum og skólastjórum að sú framkvæmd yrði of flókin því að við erum með fjölmarga skóla sem eru með öll stig innan borðs. Það hefði í raun og veru kallað á að ríkið tæki yfir hluta rekstrar mjög margra eininga, sem ég taldi ekki hagkvæma leið. Tillagan sem ég kynnti á sínum tíma var því sú að það samkomulag sem við ræðum núna yrði fest í lög með þeim hætti að þar yrði hreinlega fest í lög hvernig fjárstuðningi ríkisins yrði háttað, að framlagið skyldi renna til kennslukostnaðar við söngnám í mið- og framhaldsnámi og hljóðfæranámi í framhaldsnámi, að viðbættu álagi fyrir stjórnunarkostnað, tekið skyldi mið af áætluðu kennslumagni og kjarasamningum sem Samband íslenskra sveitarfélaga gerði við stéttarfélög tónlistarskóla á hverjum tíma og ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga mundi gera með sér samkomulag til fimm ára í senn um fjárstuðning ríkisins til sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum í samræmi við opinbera fjármálastefnu. Sveitarfélög skyldu hins vegar tryggja að framlag samkvæmt þessari málsgrein mundi fjármagna kennslu þeirra nemenda sem væru innritaðir í viðurkennda tónlistarskóla án tillits til búsetu. Við lögðum í raun og veru til að hlutverk ríkis (Forseti hringir.) og sveitarfélaga yrðu skilgreind með lögum þannig að við værum ekki með þessa (Forseti hringir.) túlkunaróvissu.