144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 41/2013, um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, með síðari breytingum. Frumvarp þetta er flutt af meiri hluta atvinnuveganefndar, þeim hv. þingmönnum Jóni Gunnarssyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Haraldi Benediktssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Kristjáni L. Möller, Páli Jóhanni Pálssyni, Þorsteini Sæmundssyni og Þórunni Egilsdóttur.

Forsaga málsins er í sem fæstum orðum einfaldlega sú að á síðasta kjörtímabili er ráðist í lagasetningu til þess að undirbúa innviði fyrir uppbyggingu atvinnu í landi Bakka, búa þannig um hnúta að hægt verði að byggja stóriðju á þeirri iðnaðarlóð sem þar er með fullnægjandi hætti. Hluti af þeirri framkvæmd var að leggja veggöng til þess að tengja saman iðnaðarlóðina og hafnarsvæðið. Það ákvæði sem atvinnuveganefnd óskar eftir breytingum á lögum um fjallar einmitt um þá framkvæmd, þ.e. gangagerðina sjálfa.

Í 1. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Orðin „sem kostar allt að 1.800 millj. kr., miðað við verðlag í lok árs 2012“ í a-lið 1. mgr. 1. gr. laganna falla brott.“

Ástæðan fyrir tillögu okkar um að fella þennan texta út og hafa einfaldlega ótilgreinda upphæð er sú að nú liggur fyrir að undirbúningur undir löggjöfina á sínum tíma var allsendis ófullnægjandi, þ.e. ekki lágu fyrir nægilega greinargóðar áætlanir um kostnað við þessa gangagerð og komið hefur í ljós að hún er mun kostnaðarmeiri en áður var reiknað með. Nú liggur fyrir kostnaðaráætlun upp á að allt að 3.200 millj. kr. í stað 1.800 millj. kr. eins og áður hafði verið áætlað.

Komið hefur fram við umfjöllun um þetta mál að það vegi kannski einna þyngst að ráðast þarf í mun meiri framkvæmdir vegna styrkingar á bergi vegna jarðskjálftahættu á svæðinu en áður var talið þar sem áður virtist við undirbúning málsins einungis hafa verið miðað við grófar kostnaðartölur úr gangagerð og vegagerð en þessi gangagerð er ekki lík hefðbundinni vegagerð sem við þekkjum einna helst úr almenna vegakerfinu. Þarna er meiri jarðskjálftahætta, göngin eru breiðari og þau þurfa líka að þola meiri þungaflutninga. Veglínu og gangastæði hefur líka verið breytt þannig að þar liggur einnig fyrir aukinn kostnaður.

Um málið í heild sinni má svo sem margt segja en ég vil samt taka fram að ég fagna því að þessi atvinnuuppbygging í landi Bakka og á Norðurlandi sé að hefjast. Ég held að hún sé gríðarlega mikilvæg fyrir þetta svæði. Komandi úr héraði sem hefur á um 40 árum upplifað miklar breytingar vegna uppbyggingar á stóriðju veit ég að þessi uppbygging í landi Bakka og þær framkvæmdir sem nú eru að fara af stað munu breyta gríðarlega miklu fyrir byggðina og fyrir byggðarlögin og mannlífið þar í kring. Það breytir því hins vegar ekki að hér liggur fyrir gríðarlega mikill kostnaður sem hið opinbera ætlar að ráðast í til þess að af þessum framkvæmdum geti orðið. Það hefur verið gert í mörgum tilfellum þegar uppbygging stóriðju hefur staðið fyrir dyrum. Þannig var til dæmis opinber aðkoma að framkvæmdum hvort sem við nefnum Grundartanga, Straumsvík á sínum tíma eða Reyðarfjörð.

Það sem stingur helst í augu þegar við fjöllum um þetta mál er undirbúningurinn að lagasetningunni sem hrindir af stað þeim gríðarlega miklu stóriðjuframkvæmdum sem undirbúnar voru á síðasta kjörtímabili. Af þeim undirbúningi megum við margt læra. Það er til dæmis ekki alveg ljóst hver átti að afla hvaða upplýsinga og hvernig upplýsingarnar berast núna á þessu stigi þegar raungera þarf þessar áætlanir, að farið er að reikna betur. Þar blasir við að umdeilanlegt er hvort við eigum að vista gangagerð sem tilheyrir þessari ívilnun eða þessum innviðaframkvæmdum í atvinnuvegaráðuneyti en ekki hjá fagráðuneyti vegagerðar, innanríkisráðuneytinu.

Þegar farið er að funda um málið og ég hef tekið þátt í fundum um það, bæði í hv. atvinnuveganefnd og í hv. fjárlaganefnd, þá bendir hver á annan í kerfinu. Við komumst samt ekki undan því að rifja upp að það er að sjálfsögðu á ábyrgð þeirra sem stóðu að því að samþykkja þessi lög og um þau var almenn og breið samstaða í þinginu á sínum tíma.

Þetta eru meginástæður þess að atvinnuveganefnd flytur þetta lagafrumvarp og vill aflétta því lagaákvæði sem ég hef greint frá til þess að hæstv. iðnaðarráðherra geti þá fullnustað sinn hluta af þessum innviðaframkvæmdum og þannig öðlist verkið þá stöðu að Vegagerðin geti boðið út þessa vegagerð og gangaframkvæmd.

Þó að áætlaður kostnaður í dag sé 3,2 milljarðar kr. er allsendis óvíst að vita hver endanlegur kostnaður verður. Við höfum ekki niðurstöður útboða enn í hendi þar sem þau hafa ekki farið fram og kannski fullsnemmt að fullyrða um endanlegar tölur í þeim efnum. Eins og gengið er frá textanum í þessu frumvarpi þá stendur það nú opið.

Eins og ég hef áður lesið leggur meiri hluti atvinnuveganefndar því þetta frumvarp fram til umræðu.