144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hv. þingmenn fara í andsvör við aðra þingmenn þá er ágætt að hlusta kannski á alla ræðuna svo að þeir séu ekki að tala alveg út og suður miðað við það andsvar (Gripið fram í.) sem þarf að veita. Ég hef aldrei rætt um að þetta þyrfti ekki. Ég fór meira að segja yfir það að brýn nauðsyn væri að gera þetta. En matið á þessu lá ekki fyrir, þessi frammúrkeyrsla upp á 70%, fyrr en núna í vor. Það var því alltaf unnið út frá þessari tölu upp á 1.800 milljónir, allt þar til það kemur í ljós að það er allt of vanáætlað, og á því ber síðasta ríkisstjórn ábyrgð. Ég fór yfir það í ræðu minni að það væri þverpólitísk sátt um að þetta verkefni færi af stað. Þess vegna skil ég ekki þann æsing sem hleypur hér í hv. þingmann.

Ég lagði það til í ræðu minni, og það hefði hv. þm. Kristján Möller heyrt hefði hann verið hér í þingsalnum meðan ég flutti hana, að þetta verkefni yrði vistað á þeim stað sem önnur jarðgangaverkefni eru, þ.e. að það komi breytingartillaga við frumvarpið fyrir 2. umr., að innanríkisráðuneytinu verði falið að sjá um framkvæmdina og fjármálaráðuneytinu verði falin fjármálahliðin á þessu verkefni. Það er allt og sumt. Það eru komin allt of mörg millistykki ef farið verður að tillögu hv. þm. Kristjáns Möllers um að hæstv. iðnaðarráðherra fari að semja við hæstv. innanríkisráðherra um þessa framkvæmd. Við erum að taka lögin upp núna og ég var að gera það að tillögu minni að við mundum þá nota ferðina til þess að koma verkefninu á réttan stað til að vinda ofan af lagasetningunni sem sannarlega fór fram á síðasta kjörtímabili.