144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir afar góða ræðu þar sem hann fór í stuttu máli yfir þá hræsni sem hefur birst hér eftir síðustu kosningar hjá fyrrum ríkisstjórnarflokkum, ríkisstjórnarflokkum sem störfuðu raunverulega í skjóli kröfuhafa.

Allir landshlutar kalla eftir atvinnuuppbyggingu og líklega má segja, virðulegi forseti, að mest sé nú þörfin á Reykjanesi. Þar var farið af stað með sambærilegt verkefni og er komið af stað á Bakka. Því er ég jafn hissa og spyrjandi yfir því hvers vegna akkúrat nákvæmlega Bakki varð fyrir valinu. Þingmaðurinn fór ágætlega yfir það. Það verkefni skyldi þó ekki hafa farið af stað vegna búsetu þáverandi formanns Vinstri grænna, flokks sem talar mjög á móti stóriðju og hefur alltaf gert og hefur látið falla afar þung orð hér í umræðunni um rammann. Þetta er auðvitað álitaefni sem þarf að velta upp.

Mig langar að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson hvers vegna hann telji að þetta verkefni hafi verið hýst í atvinnuvegaráðuneytinu þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var atvinnuvegaráðherra því í greinargerð með frumvarpinu sem varð að þeim lögum sem við erum nú að breyta kemur fram frá fjármálaráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi vakna álitaefni þar sem uppbygging og rekstur samgönguinnviða heyrir undir verksvið innanríkisráðherra og lánsfjármál ríkissjóðs eru á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra.“

Þarna kemur viljinn skýrt fram á því hvar átti að hýsa verkefnið, en ekki var farið eftir því.