144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir upplýsingum um það frá forseta hvenær sérstök umræða var síðast tekin hér á dagskrá. Ég held að það muni koma þingmönnum á óvart hversu langt er síðan það var. Það er verið að troða á réttindum okkar, þingmanna stjórnarandstöðunnar, til þess að eiga samtal við ráðherrana. (JÞÓ: Rétt.) Hvers vegna hefur til dæmis hæstv. fjármálaráðherra ekki verið tilbúinn að taka sérstaka umræðu við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um jöfnuð í samfélaginu og áhrif skattbreytinga síðan í janúar?

Virðulegi forseti. Þetta gengur auðvitað ekki. Núna í heilan mánuð meðan engin starfsáætlun hefur verið í gildi hafa engar slíkar umræður verið teknar á dagskrá. Finnst mönnum það í alvöru allt í lagi? Stjórnarmeirihlutinn mætir bara hér samkvæmt dagskipun á hverjum morgni og heldur áfram að troða á okkar rétti með því að greiða atkvæði gegn þessum tillögum. Hafið þið lesið það sem við erum að biðja um? (Forseti hringir.) Þetta er sjálfsögð ósk okkar um að tveir tímar af þinghaldinu verði núna nýttir í það að gefa okkur þann rétt að fá að nýta okkur sérstakar umræður.