144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

staða sparisjóðanna.

[10:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef margoft hér á umliðnum missirum átt mjög málefnalegar viðræður við hæstv. fjármálaráðherra um stöðu sparisjóðanna og stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum þeirra. Jafn oft hef ég verið fullvissaður um það að hæstv. ríkisstjórn vinni að því ötullega að endurreisa sparisjóðina og sjá til þess að þeir verði áfram virkt afl á fjármálamarkaði. Nú hefur það hins vegar gerst að þrír sparisjóðir hafa verið hramsaðir upp og sporðrenndir af þremur viðskiptabönkum. Það hefur allt saman fylgt sama mynstri, það hefur gerst nákvæmlega þegar fjárfestar hafa sýnt áhuga á og séð viðskiptatækifæri í sparisjóðunum. Þetta veldur því að það verður mjög erfitt að byggja upp sparisjóðakerfið vegna þess að þetta voru hryggjarstykkin í því.

Það er margt sem gerist við þetta. Í fyrsta lagi tapar ríkissjóður mikilvægri eign sem hann á í sparisjóðunum, hún verðfellur að minnsta kosti. Í öðru lagi tapast mikilvægt liðsinni í byggðarlögunum úti á landi sem hafa haft mikinn stuðning af sparisjóðunum. Í þriðja lagi er verið að herða ólina enn frekar að hálsi okkar neytenda vegna þess að sparisjóðirnir höfðu alla burði til þess að verða eina mótvægið við vaxtastefnu stóru bankanna.

Ég rifja það upp fyrir hæstv. fjármálaráðherra að fyrir skömmu kom út skýrsla um fjármálalegan stöðugleika frá Seðlabankanum. Þar voru birt yfirlit yfir vaxtamun hjá bönkum á Íslandi og í mörgum öðrum Evrópulöndum og Ísland bar frá, það var langmestur vaxtamunur hér á landi. Í reynd var ekki hægt að kalla vexti íslensku bankanna annað en ránsvexti á alþjóðlegu mælikvarða.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hefur stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum sparisjóðanna beðið algjört skipbrot?