144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

staða sparisjóðanna.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Afstaða mín birtist í fyrri ræðu minni hér, að ég tel mikils virði fyrir samkeppni á fjármálamarkaði að það sé til eitthvert mótvægi við stóru viðskiptabankana. Í því felst að það væri gott að sparisjóðakerfið næði sér á strik og þessir sparisjóðir héldu velli.

Það sem vantaði í þessa fyrirspurn frá hv. þingmanni og beinist að mér var: Bíddu, hvað átti nákvæmlega að gera? Það er ekki bæði hægt að halda því fram að ég sé með breytingum á Bankasýslunni að reyna að sölsa undir mig Bankasýsluna, sem megi alls ekki gerast, og segja í hinu orðinu: Bjarni, þú áttir að gera eitthvað og grípa í taumana eins og þú réðir yfir Bankasýslunni og (Gripið fram í.)hlut okkar í (Gripið fram í.)sparisjóðunum. Það sama gildir í raun og veru fyrir Fjármálaeftirlitið. Við getum ekki í öðru orðinu sagt að það eigi að vera sjálfstætt, vel fjármagnað og taka faglegar ákvarðanir en í hinu orðinu: Ráðherrann verður að grípa fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu þegar það er ekki að standa sig í stykkinu við að ná fram (Gripið fram í.) markmiðum ríkisstjórnarinnar.

Það sem vantar inn í þetta innlegg frá hv. þingmanni er hvað hann hefði nákvæmlega gert. Hefði hann sett skattfé á bak við vandann? Hefði hann verið tilbúinn til þess að auka (Forseti hringir.) stofnfé í sparisjóðum sem síðan kom í ljós að stóðu veikar en hann ætlaði? Hvað ætlaði hann nákvæmlega að gera?

Við erum (Forseti hringir.) einfaldlega búin að koma á fót þannig fyrirkomulagi (Forseti hringir.) að faglega eftirlitið er hjá Fjármálaeftirlitinu og eignaumsýslan er hjá Bankasýslunni. Þá er ekki hægt að koma til mín og segja: Bjarni, taktu fram fyrir hendurnar á þessum aðilum sem eiga að vera sjálfstæðir. (Gripið fram í.)