144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að fjárfestingaráætlunin, sem ég vænti að hv. þingmaður hafi verið að vitna í, um að ný ríkisstjórn hafi skorið niður, var að mestu leyti látin standa árið 2013 en niðurskurðurinn kom fram á árinu 2014. Núna erum við að tala um stöðuna eins og hún var árið 2013 og þá gerðist það að tekjur voru lækkaðar, veiðigjöldin voru lækkuð og virðisaukaskattur á gistingu settur aftur niður eins og almenningur greiddi matvæli þá aftur niður í 7%. Það munaði auðvitað um þá fjármuni, en samt sem áður er staðan svona góð.

Nú segja sumir: Já, það er vegna þess að það eru svo margir óreglulegir liðir þarna inni, við fengum 25 milljarða vegna arðs af Landsbankanum sem menn reiknuðu ekki með þó að það hefði mátt sjá það fyrir. En á móti kemur að 20 milljarðar voru teknir gjaldamegin út af skattkröfum. Það var bæði jákvætt og neikvætt, það núlluðust út óreglulegu liðirnir. Arion banki gerir ágæta greiningu á þessari stöðu og bendir á að ef við tökum óreglulegu liðina í burtu kemur árið 2013 út í plús upp á 9 milljarða sem er afar góður árangur vegna þess að árið 2009, ef við tökum óreglulega liði í burtu, var staðan neikvæð upp á 108 milljarða. Vissulega þurfti að skera niður og hækka gjöld.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér í því að þarna hafi þáttaskilin verið? Þarna gátum við farið að sjá til lands og plana til framtíðar eftir stórkostlegt efnahagshrun.