144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sérlega skemmtilega ræðu en ég tók eftir því að hv. þingmaður talaði um að þessi umræða mætti vera málefnalegri og hefði til þess alla burði en hins vegar væri það erfitt þegar hv. þingmenn kæmu hér í pontu og brigsla hver um annan.

Ég skil sjónarmiðið, tek undir það, en ég velti einnig fyrir mér hvort það sé í raun og veru hollt að ræða þessi mál eða reyna að ræða þau málefnalega á þessum tíma, við þær kringumstæður þegar þingið er og hefur lengi verið, í mánuð eða meira, ég mundi segja nokkra mánuði, í andrúmslofti vantrausts og bara almennra leiðinda þingmanna hver gagnvart öðrum og þá sér í lagi milli minni hluta og meiri hluta. Í því sambandi velti ég fyrir mér hvort þetta séu mál sem eiga heima á einhverjum öðrum tíma eða hvernig við getum haft umræðuna málefnalegri undir þessum kringumstæðum óháð einhverjum einum eða tveimur tilteknum hv. þingmönnum. Ástandið hérna á þinginu er þannig núna að það er mjög erfitt að eiga málefnalegar umræður.

Maður tekur eftir því að hér er orðin ákveðin tilhneiging til að gefa sér að allar umræður séu til þess eins að tefja, að hér stígi enginn í pontu nema til þess að þvælast fyrir og eyða tímanum. Þetta hefur náttúrlega skelfilegar afleiðingar fyrir þinghaldið og vissulega þegar kemur að svona málum. Ríkisfjármál eru þó umræðuefni sem maður hefði haldið að væru hvað skýrust skoðanaskipti um. Ég hefði gaman af því að heyra meira frá hv. þingmanni um þetta allt saman.