144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[15:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég rifja það upp að fyrr í vetur urðu hér ansi fróðlegar umræður, m.a. með þátttöku hv. þm. Geirs Jóns Þórissonar, um nauðsyn þess að koma á virkara eftirliti með starfi lögreglu. Í mörgum tilvikum er það viðkvæmt og oft og tíðum skapast deilur um háttsemi lögreglunnar. Ég vísa sérstaklega til þess að í öðrum löndum hafa spunnist langvinn átök og jafnvel mótmæli. Sem betur fer búum við við þá gæfu að íslenska lögreglan sýnir jafnan af sér hina prýðilegustu háttsemi. Ég tók hins vegar eftir því í þeirri umræðu sem ég vísaði til að hv. þingmaður Geir Jón Þórisson, sem er lögreglumaður og einn af okkar reyndustu lögreglumönnum, taldi að æskilegt væri að slíkt eftirlit yrði með einhverjum hætti formgert.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, því að það kom fram í þeirri umræðu að þetta hefði einmitt verið til rökræðu innan nefndarinnar: Hvaða afstöðu hefur hv. þingmaður til þess? Er það nóg, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að það sé einhver starfshópur að skoða þetta? Ég fæ með engu móti séð að hann hafi einhvern lokadag til þess að skila.

Í öðru lagi spyr ég hv. þingmann hvort nefndin sé sátt við fjárhagslegan umbúnað þessara breytinga. Þær fela í sér aukinn kostnað þegar héraðssaksóknari fær ný verkefni, lögreglustjórar fá ný verkefni, það er alveg ljóst að þetta kostar töluvert mikið fé. Það kom fram hjá hv. framsögumanni að þessar breytingar eiga að taka gildi á miðju ári, 1. ágúst ef ég heyrði rétt. Það kemur líka fram í nefndarálitinu að heildstæð greining á rekstrarfjármagni liggi ekki einu sinni fyrir. Er þetta allt saman í gadda slegið?