144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:29]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sannarlega höfum við viljað búa til nýtt frumvarp. Það hefur verið ljóst alveg frá fyrstu dögum eftir kosningar. Ég ætla ekki að fara að rifja það upp. Ég held að þingheimur allur viti um gang þessara mála. Fyrrverandi umhverfisráðherra kom hér með tillögu um algerlega nýtt frumvarp varðandi náttúruverndina. Síðan var sæst á þá niðurstöðu að endurskoða frumvarpið og sú endurskoðun hefur sem sagt staðið yfir.

Ég hef ekki alveg forsendur til að svara 100% spurningu hv. þingmanns varðandi matið á fjárlögum. Eins og ég hef skilið það hefur verið beðið eftir því frumvarpi sem lítur dagsins ljós núna á haustdögum til að geta kostnaðarmetið það. Menn hafa ekki viljað gera það fyrr en þeir hefðu nákvæmlega þá endurskoðun í höndunum. Ég get bara ekki svarað skýrara en ég er búin að vera að reyna að endurtaka hér, hef ekki forsendur til þess.