144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki auðvelt að eiga rökræður við fólk sem fer ítrekað með rangt mál. Hér hefur hv. þm. Höskuldur Þórhallsson meira að segja lagt mér orð í munn, ítrekað, að ég hafi sagt eitt og annað, til dæmis að það eigi að ríkja ósátt í þessu máli, að ríkja eigi ósátt í málinu hefur hann ítrekað sagt og haft eftir mér án þess að ég hafi nokkurn tíma sagt það. Ég bara bið þingmanninn um að leiðrétta það því að ég sit ekki undir því að hann hafi eftir mér orðalag sem ég kannast ekki við í þessu máli.

Ég hef áhyggjur af tóninum í máli hv. þingmanns, ég hef áhyggjur af þeirri stöðu að hér er að verða gliðnun frá því sem var lagt upp með, bæði efnislega og að því er varðar aðferðir í því hvernig við ætlum að leiða málið til lykta. En að hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson skuli fara hér fram með dylgjum, ósannindum og ófriði finnst mér ekki til þess fallið að við náum farsælli lendingu í málinu.