144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er alveg óhætt að segja að hver sér hlutina með sínum hætti eins og hér kom fram hjá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni áðan. Eins og hér hefur komið fram var það rakið ágætlega í gær í hinum mörgu miðlum hvernig þessi skýrsla svarar sumu og öðru ekki, hún svarar m.a. hvorki þeim ítarlegu spurningum sem hv. þingmaður Katrín Jakobsdóttir lagði fram né þeim sem ég lagði fram. Kjarninn kallaði eftir ítarlegri svörum við ákveðnum spurningum og fékk svona fyrir rest.

Auðvitað er ekki hægt að segja að þetta sé almenn aðgerð eins og stjórnarmeirihlutinn hefur haldið fram. Það er rakið afskaplega vel að svo er ekki. Það að yngsta fólkið fái ekki nema lítinn hluta, hvers vegna? Það getur ekki keypt sér, m.a. vegna þess að íbúðaverð er svo hátt. Það að stærsti hlutinn fari til stóreignafólks og á höfuðborgarsvæðið sýnir (Gripið fram í.) líka mjög vel hversu lítið landsbyggðin tók þátt í því sukki sem varð til þess að hér fór allt á hliðina. Að auki má svo sem segja það og vert að halda því til haga að þeir sem höfðu efni á því að greiða upp skuldir sínar fyrir hrun fengu eða fá tæpa 6 milljarða úr ríkissjóði í reiðufé í formi persónuafsláttar. Á meðan erum við ekki að byggja spítala, á meðan er verið að skera niður í menntakerfinu o.s.frv.

Virðulegi forseti. Þetta getur ekki talist almenn aðgerð og hún getur ekki talist skynsamleg. Að veita um 80 milljarða, það er reyndar bara svarað til um 70 milljarða, það er ekki svarað með hina 10, við vitum hvert þeir fóru, meðan þeir eru settir hér út til fólks sem þarf ekki á því að halda … (Gripið fram í.) Ef þú átt hreinar eignir upp á 75 eða 100 milljónir, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, þá þarftu ekki stuðning úr ríkissjóði, það er að minnsta kosti mitt mat. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)