144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er eiginlega lágmark þegar þingmenn standa frammi fyrir tillögum frá framkvæmdarvaldinu sem skipta miklu máli að þeir hafi öll gögn til þess að geta skilið þau mál. Við erum á næstu dögum að fara að ræða hér ákaflega mikilvægt mál sem er stöðugleikaskattur. Hann hefur verið skýrður mjög vel í frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram og hann var líka kynntur á merkum fundi í Hörpu. Þar kom fram að stöðugleikaskatturinn átti að vera 39% og hann átti að skila 862 milljörðum. En samstundis sem kynningarfundurinn í Hörpu var búinn var líka sagt frá því að kröfuhöfunum hefði verið boðið upp á aðra leið, nauðasamningaleið, þar sem þau þyrftu að uppfylla ákveðin stöðugleikaskilyrði og reiða sjálfviljug fram ákveðin stöðugleikaframlög. Það var mjög merkilegt að á kynningarfundinum í Hörpu kom orðið stöðugleikaskilyrði hvergi fyrir, það var aldrei sagt frá því hvað fólst í þessum stöðugleikaframlögum. Við höfum aldrei fengið neinar upplýsingar um það hversu mikil þau nákvæmlega eru. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að þau kunni að vera 450 milljarðar. Flestir sérfræðingar segja 400 milljarðar. Þegar ég skoða þetta mál og met með aðstoð sérfræðinga hvað bankarnir kynnu að seljast á fær maður það út að hugsanlega yrðu stöðugleikaframlögin í ríkissjóð í versta falli 300 milljarðar. Með öðrum orðum, það er verið að gefa kröfuhöfunum kost á afslætti upp á 400–500 milljarða. Hvergi í gögnum framkvæmdarvaldsins er skýrt út hver þessi stöðugleikaskilyrði eru eða hver þessi stöðugleikaframlög eru. Svo eigum við þingmenn að taka þátt í því hér að gefa kröfuhöfum mesta afslátt sem nokkur hefur boðið þeim án þess að hafa gögn sem við getum byggt ákvarðanir okkar á.

Er þetta mönnum bjóðandi, herra forseti, eða hundum?