144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:28]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Nú fæ ég aftur tækifæri til að ræða samgöngukerfið sem ég viðraði hér áðan. Það er fínt því að ræðan var kannski heldur stutt. Hugmyndin að samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu, og kannski líka í höfuðstað Norðurlandsins þar sem er nógu mikill fjöldi fólks, byggir eins og áður sagði á þrem tækninýjungum; rafmagnsbílum, sjálfkeyrandi bílum og leigubílakerfinu Uber. Mig langar að fara aðeins betur ofan í hvern tækniþátt fyrir sig.

Ef við byrjum á rafmagnsbílunum er slíkt þekkt og við sjáum að raunveruleg orkuskipti eru í Noregi þar sem rafmagnsbílar eru til jafns í kostnaði á við hefðbundna bíla. Ég held að það sé eitt sem við þurfum að koma á hér, að það verði ekki raunverulegt fyrr en kostnaður er jafnaður þar á milli. Fyrir þá sem þekkja ekki Uber-leigubílakerfið þá er það kerfi með rosalega mörgum bílum og biðtíminn er rosalega stuttur því að það er nánast bíll á hverju horni. Þetta er gert í gegnum snjallsímaforrit og ég sé fyrir mér slíkt kerfi hér á höfuðborgarsvæðinu eða á Norðurlandi, sem yrði þá í gegnum svipað forrit og Uber og gæti þá verið forpöntun eða pöntun á bíl svipað og leigubílum. Svo kannski að lokum það sem er ekki komið en verið er að vinna að, þ.e. sjálfkeyrandi bílar. Þar mun Sverrir Bollason skila skýrslu af sér í sumar um hvernig sjálfkeyrandi bílar munu virka með samgöngukerfinu á Íslandi. Ég held að þetta geti leyst (Forseti hringir.) mjög mörg vandamál, t.d. í ferðaþjónustu fatlaðra, dregið úr ölvunarakstri og fleira.