144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það hefði verið réttast af núverandi ríkisstjórnarflokkum að láta lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, taka gildi þegar þau áttu að taka gildi og nota kjörtímabilið sem nú er hálfnað til að vinna breytingartillögur sem væru í anda þeirra breytinga sem stjórnarflokkarnir teldu eðlilegt að gera á náttúruverndarlögum. Það var vönduð vinna sem fram fór á síðasta kjörtímabili, hún tók langan tíma og fól í sér mjög mikilvægar umbætur á löggjöf frá 1999, sem þörf var á. Það var fullkomlega ástæðulaust af hæstv. ríkisstjórn að gefa þá yfirlýsingu að hún ætlaði að afturkalla lögin eins og það var orðað í þá tíð.

Nú er þessum lögum frestað enn á ný og reyndar innbyggður tímarammi sem setur bæði ríkisstjórn og umhverfis- og samgöngunefnd mjög þröngan ramma til að vinna málið. Það skiptir þess vegna miklu máli að það komi snemma fram í haust.