144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:39]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég hafði reyndar gert ráð fyrir því að meiri hlutinn mundi mæla fyrir framhaldsnefndaráliti sínu en svo virðist ekki vera. Ég vil mæla fyrir framhaldsnefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar. Við fengum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til fundar við nefndina í kjölfar umræðna sem voru hér í þingsal. Mönnum þótti nokkuð ljóst að ábendingar minni hlutans um gildi þingsályktunartillögunnar áttu við rök að styðjast og málið var tekið til umræðu í nefndinni aftur.

Að mati minni hlutans munu nýgerðir kjarasamningar, ákvarðanir um skattalækkanir og áætlun um losun hafta hafa umtalsverð áhrif á ríkisfjármálin næstu árin. Því er nauðsynlegt að draga tillöguna til baka og leggja fram nýja og vandaðri ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019.

Frú forseti. Okkur finnst þetta vera nokkuð augljóst mál því að þetta eru stórir óvissuþættir sem núna er suma hverja hægt að áætla með næstu árin.

Minni hlutinn ítrekar þá gagnrýni á ríkisfjármálaáætlunina sem sett var fram í fyrra nefndaráliti. Að mati minni hlutans er ekki ljóst af hvaða forsendum ríkisfjármálaáætlunarinnar ráðherra fjármála er bundinn og þar með liggur vægi áætlunarinnar ekki skýrt fyrir. Það er auðvelt að draga í efa gildi samþykktrar tillögu og færa fyrir því rök að í raun sé það geðþóttaákvörðun ráðherra hvaða forsendur hann velur að leggja sem grunn að fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016.

Að mati minni hlutans þarf að skýra forsendur fyrir útreikningum á tekjum og gjöldum mun betur til að styrkja tillöguna og færa ályktunina í það form sem lög um þingsköp Alþingis gera ráð fyrir. Fyrr verður umræðan og afgreiðsla tillögunnar ekki í því formi sem æskilegt er. Það er mikilvægt að með skýrari tillögu setji þingið ráðherrum skorður og viðmið í fjárlagagerðinni sem enginn vafi er um að þeim beri að fylgja. Minni hlutinn leggur því til að málið komi ekki til atkvæðagreiðslu á yfirstandandi þingi, en verði lagt fram að nýju í haust með nýrri og skýrari áætlun til næstu fjögurra ára.

Frú forseti. Ég hef stuttan tíma en get komið í aðra ræðu ef einhver fer í ræðu hér á milli, sem ég vona að einhver geri svo að ég geti komið því að sem mér finnst ég þurfa að gera áður en þessari umræðu lýkur.

Í framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að það sé mikill styrkur fyrir fjármála- og efnahagsráðherra að hafa í höndum samþykkta ríkisfjármálaáætlun frá Alþingi. Hann hefur þá stefnumiðin samþykkt þegar umræðan við aðra ráðherra hefst í fjárlagagerðinni og í því felst meiri agi en áður hefur þekkst. “

Virðulegur forseti. Ég get sannarlega tekið undir að það er ákveðinn styrkur í því ef hæstv. fjármálaráðherra fer inn í fjárlagagerðina með samþykkt þingsins að baki fyrir ákveðnum forsendum en ég hlýt að spyrja, vegna óvissuþáttanna sem taldir eru upp í áætluninni: Af hverju er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra bundinn?

Ég vil benda á að undir liðnum um störf þingsins í dag átti ég orðastað við hv. þm. Willum Þór Þórsson þar sem talað var um þær forsendur að bætur almannatrygginga ættu ekki að hækka um meira en 1% umfram verðbólgu á árunum 2016–2019, og ég hlýt að spyrja: Er hæstv. fjármálaráðherra bundinn af þeirri forsendu ef þingið samþykkir ekki fjármálaáætlunina, en í því felst að forsendur hennar eru samþykktar líka? Það er önnur forsenda sem hér er undir, sem kemur mjög skýrt fram og það er tekið skýrt fram að ef kjör ríkisstarfsmanna verða þannig að kaupmáttur eykst um meira en 2% á ári næstu fjögur árin verði skorið niður á móti. Það verður skorið niður á móti þeirri kauphækkun. Ég hlýt að spyrja þarna líka: Er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra bundinn af þeirri forsendu þegar þingið er búið að samþykkja ríkisfjármálaáætlunina?

Þetta eru stórar spurningar, frú forseti, og ég leyfi mér satt að segja að efast um að hv. stjórnarþingmenn hafi velt fyrir sér skilaboðunum og af hverju verið er að binda hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2016 með samþykkt þessarar ríkisfjármálaáætlunar. Vita þeir það? Eða getur hæstv. ráðherra bara valið eftir hverju hann fer og hverju hann breytir?