144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn virðist ekki enn átta sig á því sem ég fer hér með, því að ég hafi áhyggjur af því að frumvarp til laga um opinber fjármál verði að lögum. Það er ekki hægt að taka mál í gegnum þingið eins og við höfum séð á þessum þingvetri. Þegar eru komin tvö veigamikil mál inn í þingið, þingsályktunartillagan um ríkisfjármálaáætlun með römmum og svo jafnframt að framfylgja lögum um opinber fjármál. Eins og staðan er núna met ég það þannig að þingið sé ekki tækt til að takast á við þessi tvö stóru mál. Svo ætla ég ekki að ræða það hér meir.

Það sem þingmaðurinn er líklega að vísa í þegar verið er að tala um, að mati stjórnarandstöðunnar, að hér séu ákveðnir liðir vanáætlaðir, þá þýðir það á íslensku, og ég sem formaður fjárlaganefndar tek undir nýútkomna skýrslu ríkisendurskoðanda, að standist stofnanir ekki fjárlög verði að grípa til þeirra úrræða sem tiltæk eru til þess að þeir aðilar geti verið (Forseti hringir.) innan fjárheimilda og við vitum hvað það þýðir. Það er annaðhvort niðurskurður eða þá einhvers (Forseti hringir.) konar hagræðing.