144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það hafa fleiri en hv. framsóknarþingmenn tekið eftir því að verslunin virðist ekki hafa lækkað vöruverð hvað varðar t.d. sykraðar vörur í samræmi við þá miklu lækkun sem varð á sykurskattinum eða með niðurfellingu hans hér um áramótin. En af hverju kemur þetta mönnum á óvart? Af hverju eru hv. þingmenn Framsóknarflokksins hissa á þessu? (ÞorS: Við erum ekki hissa.) Á þetta var margítrekað bent og reynsludæmi nefnd um að veruleg hætta væri á að nákvæmlega þetta mundi gerast, en samt létu menn sig hafa það að styðja þetta, (Gripið fram í.) þingmenn Framsóknarflokksins. Ég hef því ekki óskaplega samúð með þeim þegar þeir koma hér og væla yfir því að nú hafi það gerst sem þeir voru varaðir við, að þetta mundi sennilega ekki skila sér til neytenda. (ÞorS: Samúð með neytendum.)

Að öðru leyti ætlaði ég að taka undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur varðandi það dapurlega ástand, þá sorglegu staðreynd að við erum að sigla inn í þriðja sumarið í röð undir forustu þessarar ríkisstjórnar með algert upplausnarástand hvað varðar ferðamannastaðina og úrbætur þar, svo ekki sé minnst á þrýstinginn á handahófskennda gjaldtöku þar sem einkaaðilar ætla sér að fara að maka krókinn með því að selja inn á svæði sem ríkið hefur í mörgum tilvikum jafnvel lagt peninga í að byggja upp eða leggja göngustíga og annað í þeim dúr.

Það verður að segja það bara eins og það er á skiljanlegri íslensku, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur svoleiðis forklúðrað þessum málum að það er alveg hroðalegt. Af meinbægni sinni henti hún út fjárfestingum og fjárveitingum til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum sem fyrri ríkisstjórn hafði hafist handa um með verulegum fjármunum í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og á grundvelli fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar, þá átti að taka upp einhvern náttúrupassa eða eitthvað annað. Ekkert af því hefur komist í gegn. Ríkisstjórnin reynir að bjarga sér með einhverjum aukafjárveitingum ár eftir ár og hæstv. iðnaðar- og ferðamálaráðherra er heimaskítsmát (Forseti hringir.) — er heimaskítsmát með allt í upplausn eftir á þriðja ár.