144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[13:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þessa skynsamlegu tillögu um könnun á samgöngubótum. Það er mjög sérstakt að heyra málflutning sumra þingmanna þegar þeir ganga svo langt í að grafa sig ofan í skotgrafir út af staðsetningu flugvallar í Vatnsmýri (Gripið fram í.) að þeir vilja banna samgöngubætur á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Það er eiginlega algjörlega ótrúlegt að heyra hversu menn langar mikið að dvelja í skotgröfunum í þessu máli.

Í síðustu ferð minni frá útlöndum þá var það nú þannig að ef allt er talið með, biðin í rútunni og ferðin niður á BSÍ, þá tók þetta klukkutíma og 45 mínútur. Það er hægt að bæta mjög og stytta þennan ferðatíma. Það er full ástæða til þess að kanna alla möguleika á því að bæta þessar samgöngur. Það er mjög mikilvægt við þær aðstæður sem við sjáum núna (Forseti hringir.) hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að taka í útrétta hönd þeirra (Forseti hringir.) og vinna með þeim að umbótum í samgöngumálum.