144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[11:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að þessi skýrsla sé komin fram og nefndarstarfi lokið. Við vitum að deilur um Reykjavíkurflugvöll hafa verið viðvarandi, eins og hv. þingmaður nefndi, og málið hefur á margan hátt verið mjög erfitt innan höfuðborgarinnar og jafnframt hefur verið mikill núningur milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar, sem aldrei er gott. Við vitum að málið hefur verið þungt í vöfum.

Í þessari skýrslu svokallaðrar Rögnunefndar finnst mér felast mikil langtímahugsun í flugvallarmálum, sem ég held reyndar að sé mjög mikilvæg. Ég held að þegar flugrekstur er skipulagður verði að horfa til langs tíma, það verði að horfa til þeirra gríðarlegu fjárfestinga sem þar eru undir. Það þarf líka að horfa til þeirra fjárfestinga sem þegar eru fyrir hendi í flugvallarrekstri. Þegar litið er til ríkisins er það nú þannig að ríkið rekur Keflavíkurflugvöll. Það stendur fyrir verulegum fjárfestingum þar nú um stundir og er ekki ólíklegt að ríkið muni þurfa að fara í verulegar fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli. Þegar litið er til framtíðarhugsunar eins og þarna kemur fram verður því líka að líta til þess að ríkið hefur mjög miklar fjárhagslegar skuldbindingar vegna millilandaflugs á Keflavíkurflugvelli.

Þar til annar flugvöllur er fyrir hendi og verður tilbúinn, og það kemur fram í niðurstöðu Rögnunefndarinnar, verður Reykjavíkurflugvöllur auðvitað þar sem hann er í öruggum rekstri. Þá er það skylda mín sem yfirmanns flugmála hér á landi að tryggja að það öryggi sé fyrir hendi og alveg ljóst. Ég mun ekki geta hugsað mér að bera ábyrgð á neinum afslætti í því efni meðan ég sit í þessum stól.

Þetta þarf að hafa í huga. Svo liggur líka fyrir að það er stefna þessarar ríkisstjórnar að flugvöllurinn skuli vera í Reykjavík. Það þekkjum við allt saman. Nú er bara komið að því að taka við þessum (Forseti hringir.) niðurstöðum, leiða saman þá aðila sem að þessu máli koma og hugsa það áfram til lengri tíma, (Forseti hringir.) en alltaf þó með það í huga að á meðan fyrirkomulagið er með þessum hætti (Forseti hringir.) verðum við að vera örugg um að Reykjavíkurflugvöllur sé tryggður.