144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[11:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Það er alveg ljóst að auðvitað verður Reykjavíkurflugvöllur þarna, hann færist ekki strax. En það er einmitt verið að reyna að horfa til langs tíma og einnig er verið að horfa til langs tíma í aðalskipulagi Reykjavíkur. Mér finnst stundum þeir hagsmunir gleymast í þessu að borgin vill haga uppbyggingu sinni þannig að byggðin verði þéttari, og það er skynsamlegt að mínu mati. Það þýðir heilbrigðari lífsstíl, umhverfisvænni lífsstíl og þar fram eftir götunum. Það er mikið hagsmunamál sem þarf líka að meta til fjár í þessu, en Rögnunefndin hefur skilað skýrslu sem mér finnst mjög þarft og yfirvegað innlegg í þessa umræðu alla. Mér finnst mjög athyglisvert að hún kemst að þeirri niðurstöðu að miðað við þær fjárfestingar sem þarf til að byggja upp innanlandsflugið svo það nýtist landsmönnum og ferðamönnum henti Vatnsmýrin ekki, það sé miklu dýrara að (Forseti hringir.) byggja þannig flugvöll þar, ódýrast sé að gera það í Hvassahrauni.

Má ég biðja um viðhorf hæstv. ráðherra bara til þeirrar staðhæfingar sem mér finnst koma fram í skýrslunni?