144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gríman fer af. Nú er komin aukaálagning á 16 milljarðana sem var talað um áðan, þeir eru orðnir 18 eða 22 og það munar miklu. Það munar ansi miklu hvort við erum að tala um 22 milljarða eða 16. Hversu mikill hluti af því er að verða til við fullnaðarframleiðslu afurða á Íslandi, sem hefur vaxið mjög mikið og á stóran þátt í því hversu íslenskur sjávarútvegur hefur eflt stöðu sína? Er ekki hætta á því að mati hv. þingmanns að við munum horft á sama dæmi og er að gerast núna hjá Actavis, 300 manna framleiðslueining, búið er að fjárfesta í starfsfólki, búið að fjárfesta í húsnæði, búið að fjárfesta í öllum tækjabúnaði, þekkingin er til staðar, reynslan er til staðar, að fyrirtæki sjái sér samt hagkvæmni í því að flytja framleiðsluna til Búlgaríu? Er ekki hætta á því að við lendum í sömu stöðu og Norðmenn sem, reyndar á öðrum forsendum, flytja miklu meira af óunnu hráefni úr landi en við, að við lendum í því sama ef við ætlum að fara of mikið inn í vinnsluhluta greinarinnar til þess að reikna út eðlilega auðlindarentu? Blasir þá ekki við að menn munu skoða það að flytja þessar framleiðslueiningar úr landi? Er það ekki hætta ef við förum of langt?

Ég ítreka aftur spurningu mína til hv. þingmanns, sem telur að hálftími hjá honum í mjög ítarlegu erindi leiði allan sannleika í ljós í þessu, má ég biðja hann að bæta öðrum hálftíma við og reikna þetta niður á fyrirtæki, þannig að hann komi með það svart á hvítu hvað hann telji þau fyrirtæki sem hér eiga undir geta greitt í veiðigjöld og eigi að greiða í veiðigjöld samkvæmt yfirferð hans.