145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Mig langar í upphafi að heilsa ykkur sem heima sitjið og biðja ykkur um að koma með mér í stutt ferðalag, loka augunum og við ímyndum okkur að við séum komin upp á Vatnajökul í sól og blíðu og víðernin blasi við. Ímyndum okkur nú að það sé fleira fólk á Vatnajökli, það sé fullt af fólki á Vatnajökli, samt ekki troðnara en svo að við getum rétt út hendurnar. Við sjáum mannmergðina. Ímyndum okkur nú að við séum komin til London. Þar er bara ekki hræða á götunum og ekki hræða í neðanjarðarlestunum vegna þess að allt fólkið er uppi á Vatnajökli. Við komum til Sýrlands. Þar er enginn, engin átök, ekki neitt, allt fólkið uppi á Vatnajökli. Kína — tómt. Indland — tómt. Þegar við opnum augun, ætlum við þá að reyna að halda því fram í fullri alvöru að heimurinn sé svo stór að við getum ekki haft áhrif á hann til breytinga og mannfjöldinn svo mikill að við skiljum ekki hver hann er? Nei, það er ekki þannig. Er það ekki kannski frekar að við sannfærumst um að sú tilfinning okkar að við getum leyst vandann sé rétt en að það sem haldi aftur af okkur séu mótbárur og afsakanir ríkjandi valdakerfa?

Þess vegna var svo mikilvægt að sjá vilja og frumkvæði íslensku þjóðarinnar þegar hún sýndi allt það besta í sínu fari þegar fólk lét til sín taka og bauð fram aðstoð og góðan hug við móttöku flóttafólks. Við erum enda flóttafólk og það er eðlilegt að við tengjumst flóttafólki sterkum böndum. Íslendingar voru í upphafi flóttamenn og ef það er eitthvað sem hefur einkennt Ísland frá því að hið íslenska þrælahald var lagt af, vistarbandið, í lok 19. aldar eru það linnulausir þjóðflutningar. Hlutskipti íslensks alþýðufólks hefur verið að elta vinnu hvar sem hana er að fá, leita eftir tækifærum, sveitirnar tæmdust, fólk elti Kanavinnu, Bretavinnu, síld, fiskvinnu. Heilu og hálfu landshlutarnir tæmdust og aðrir byggðust upp vegna þess að draumurinn um betra líf, draumurinn um að gera betur fyrir okkur og börnin okkar er sammannlegur og eilífur.

Enn þann dag í dag flytur fólk í leit að betra lífi en í fyrsta sinn frá vesturferðunum eiga þessir flutningar sér ekki stað innan Íslands. Fólkið sem flutti til nágrannalandanna eftir hrun er ekki að koma heim og á síðasta ári bættist í brottflutninginn. Viðtöl í fjölmiðlum undanfarin missiri sýna okkur myndir sem eru eins og úr draumaheimi og það er með ólíkindum að sjá þann mun á lífskjörum og aðbúnaði fólks sem við sjáum í nánustu nágrannalöndum og svo hér. Fólk lýsir veröld sem við þekkjum ekki nema af afspurn, húsnæðislánum sem lækka þegar greitt er af þeim, húsnæðislánavöxtum undir 2% og engri verðtryggingu, fæðingarorlofi upp á 12–18 mánuði sem tryggir samvistir við börn, að jafnaði tvöfalt hærri launum en hér og styttri vinnutíma, öruggu leiguhúsnæði, heilbrigðiskerfi sem rekið er fyrir opinbert skattfé og kallar ekki á kostnaðarþátttöku alla daga og lægra matarverði. Svona mætti lengi telja. Hvernig má það vera að þegar fólk lýsir okkar næstu nágrannalöndum og tilvist venjulegs fólks þar finnist okkur það vera að lýsa fjarlægu draumalandi? Hvar hefur okkur fatast flugið? Við getum ekki sætt okkur við óbreytt ástand og sætt okkur við það að fólkið flytji út, við verðum að flytja þetta ástand inn. Mikilvægasta verkefni okkar er að byggja framtíð fyrir fólk á Íslandi. Íslensk stjórnvöld og stjórnmál eru týnd í þrasi um liðna tíð. Þetta getur ekki gengið svona lengur, við þurfum byltingu í atvinnuháttum, stjórnarháttum og velferð.

Forsenda viðsnúnings er að hér verði til betur launuð störf og til þess þurfum við að reiða okkur á þekkinguna. Allt okkar afl á að miða að því að fjölga þekkingarstörfum og gera Ísland að besta landi í heimi til að þróa hugmyndir og koma þeim í framkvæmd. Þekkingarstörf geta vaxið endalaust, þau taka ekkert pláss, þau ganga ekki á sameiginlegar auðlindir okkar allra. Þess vegna eigum við að sækja fordæmi, t.d. til þess góða árangurs sem við sjáum nú á sviði íþróttanna. Hvað einkennir árangurinn annað en dugnaður íþróttamannanna sjálfra? Jú, við fjárfestum í bestu þekkingu og tækni til að leggja grunninn að þessum árangri.

Ef við reiðum okkur á þekkinguna munum við njóta ávaxtanna. Menntakerfið þarf að styðja við nýsköpun. Ríkisstjórnin vill breyta framhaldsskólunum í hraðbraut fyrir þá sem geta komist hratt yfir. Það hefur aldrei verið vandamál á Íslandi að komast hratt yfir í framhaldsskólunum, en við höfum ekki sinnt því að gæta þess að framhaldsskólinn þjóni þeim sem hafa átt erfiðara með að fóta sig þar og nú er ríkisstjórnin búin að loka leiðinni fyrir fólk að afla sér starfsreynslu og koma svo aftur inn í framhaldsskólana, reynslunni ríkara.

Við þurfum heilbrigðisþjónustu í fremstu röð sem er greidd af skattfé vegna þess að fólk sættir sig ekki við allt aðrar aðstæður hér en í nágrannalöndunum. Og við þurfum félagslega þjónustu í fremstu röð, ef fólkið á að vilja taka slaginn með okkur verður aðbúnaður barnafjölskyldna hér að vera sambærilegur við það sem hann er í nágrannalöndunum. Þegar fjárlagafrumvarp dagsins í dag er lesið skilar ríkisstjórnin auðu þegar kemur að því að efla og styrkja barnabótakerfið, vaxtabótakerfið, húsaleigubótakerfið og fæðingarorlof og gera þessa þætti raunverulega sambærilega við það sem er að finna í nágrannalöndunum. Það er ekki hægt að hlunnfara aldraða og öryrkja um sömu kjör og þeir fá sem eru á vinnumarkaði eins og ríkisstjórnin stefnir nú að. Það er ekki hægt að skila auðu í uppbyggingu hjúkrunarheimila og setja fólk í óvissu um búsetu á ævikvöldinu.

Góðir Íslendingar. Ég hef tekið eftir þeim skilaboðum sem þið hafið sent mér, mínum flokki og okkur öllum í þessum sal í skoðanakönnunum undanfarinna mánaða. Ég vil segja alveg hreint og skýrt að við í Samfylkingunni erum að hlusta. Síðasta þing var gríðarlangt, átök harkaleg og þingið var með eindæmum árangurslítið, skilaði fáum málum af sér miðað við starfstíma. Það sýndi þjóðinni skelfilega ásýnd og nú hljótum við að nýta það sögulega tækifæri sem við höfum til að breyta í grundvallaratriðum starfsháttum í þessari stofnun með því að gera þriðjungi þingmanna kleift að vísa málum í þjóðaratkvæði. Þá erum við í Samfylkingunni tilbúin að taka þátt í grundvallarbreytingum á starfsháttum, stytta ræðutímann og gera Alþingi og vinnulagið hér þannig úr garði að sómi sé að.

Grundvallarreglurnar þurfa nefnilega að vera í lagi. Við sáum það svo vel á síðasta ári. Breytingar á stjórnarskrá eru ekki eitthvert gæluverkefni sem engu máli skiptir. Harkalegustu átökin á síðasta ári voru nákvæmlega um það hvort það ætti að vera hægt að gefa ákveðnum aðilum sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og hvort hægt væri að hlunnfara fólk um það loforð að fá að taka ákvörðun í grundvallarmáli eins og aðildarumsókninni að Evrópusambandinu.

Við getum núna gefið þjóðinni færi á að festa í stjórnarskrá ákvæði sem heimila þjóðinni að kalla mál til þjóðaratkvæðagreiðslu sem og tryggja þjóðareign á auðlindum. Allir flokkar sem fulltrúa eiga í þessum sal hafa einhvern tímann lofað þjóðinni þessu. Ég held að skilaboðin sem við fáum frá þjóðinni séu þess eðlis að stjórnmálaflokkarnir séu raunverulega á síðasta séns hjá þjóðinni. Ef menn láta þetta tækifæri sér úr greipum ganga nú held ég að það sé yfirlýsing um að stjórnmálakerfið dugar ekki til að ná fram þeim grundvallarbreytingum sem víðtæk samstaða er um í þjóðlífinu að þurfi að verða. Svo þarf að halda áfram með stjórnarskrárbreytingar í samræmi við þann vilja sem þjóðin hefur tjáð. Í því máli hafa verið gerð mistök á mistök ofan og ég er ekki saklaus af þeim.

Góðir Íslendingar. Við erum að lifa ótrúlegar breytingar. Einu sinni stjórnuðu flokkarnir því sem var á dagskrá, höfðu dagskrárvaldið, héldu meira að segja að þeir ættu fólk, skömmtuðu fólki aðstöðu og störf. Samfylkingin var stofnuð gegn þessum úldnu stjórnmálum. Blessunarlega hefur svo margt breyst, tækniframfarir gera fólki nú kleift að taka eftir því sem fólk vill. Áhugi og geta fólks brýst fram með fordæmalausum hætti. Tugþúsundir skrifa undir mótmæli gegn því að sumum sé gefinn makrílstofninn. Þúsundir brugðust við á svipstundu og buðu fram aðstoð við móttöku flóttamanna. Tugþúsundir gengu druslugöngu til að mótmæla kynferðislegu ofbeldi og gleðigangan sló öll met. Það skortir ekkert á vilja íslensku þjóðarinnar til þess að láta til sín taka þegar réttlætismál eru annars vegar.

Rétt eins og við sannfærðumst um það áðan þegar við fórum upp á Vatnajökul að við gætum breytt heiminum getum við líka breytt Íslandi. Við getum skapað hér samfélag sem laðar fólkið okkar heim, tekur vel á móti gestum og býr okkur öllum jöfn tækifæri og líf með reisn.