145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það get ég svo sannarlega tekið undir að kerfi almannatrygginga er orðið gríðarlega flókið. Það er erfitt að skilja alla ranghalana í því, öll skerðingarákvæðin, hvernig réttindi breytast eftir því hver fjölskyldustaðan er og hvar í tekjubilinu menn eru staddir hverju sinni. Þetta er meginástæða þess að flokkarnir hafa saman með öðrum hagsmunaaðilum verið að vinna að uppstokkun á almannatryggingakerfinu. Sú vinna er talsvert langt komin. Við sjáum vonandi góðar tillögur frá þeirri nefnd núna fyrir áramótin.

Ég rakti það í framsögu minni að við erum, hvað sem líður breytingum á kerfinu, að hækka grunninn í kerfinu um 9,4%. Það er gríðarlega mikil aukning. Hún byggir á því að við erum að ná árangri í efnahagsmálum heilt yfir og bæta stöðu ríkissjóðs. Við getum, ef við höldum (Forseti hringir.) okkar striki, haldið áfram að gera betur.