145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Það er ágætt að fá loksins núna einhverja tilfinningu fyrir því hvenær eitthvað kemur út úr þessari nefnd.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að öðru sem mér finnst gríðarlega mikilvægt. Ég hef tekið eftir því þegar maður rýnir í fjárlög hverju sinni þá vantar möguleika á að skoða samhliða, í þeim gögnum sem við þingmenn fáum, til dæmis fjárlög síðasta árs til að bera saman þessar upplýsingar og bakgrunninn að þeim í einhverri samfellu og á auðskiljanlegan máta. Maður veltir fyrir sér hvort það sé ekki tímabært og hvort hæstv. ráðherra sé ekki tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að fjárlög séu aðgengilegri, skiljanlegri og gagnsærri.