145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnir almennt og ráðamenn hafa tilhneigingu til að þakka sjálfum sér fyrir það þegar vel gengur og kenna öðrum um þegar illa fer. Það er verulegt gleðiefni að ríkissjóður skili núna afgangi en mér finnst mikilvægt að halda því til haga með hliðsjón af því hvernig ráðamenn tala, nú sem áður, að í raun og veru ætti ekki að koma neinum á óvart að ríkissjóður skili afgangi sjö árum eftir kreppu, sérstaklega ekki miðað við hvernig þróun var á ríkisfjármálunum á síðasta kjörtímabili.

Ég var ekki á Alþingi í tíð síðustu ríkisstjórnar og ber enga ábyrgð á því sem þá var gert eða ekki gert og get því engum verkum mínum þakkað eða kennt um. Ég lít á tölurnar og ég lít á þróun ríkissjóðs yfir síðasta kjörtímabil og núverandi og það sést og er deginum ljósara að það er ekki þessi hæstv. ríkisstjórn sem gerði það að verkum að ríkissjóður skilar afgangi núna. Hann byrjaði að skila afgangi þegar núverandi ríkisstjórn tók við.

Mér þykir óþarfi að þakka einum það eða kenna öðrum um. Það sem mér finnst mikilvægt er að hafa í huga að sú tilhneiging er meðal stjórnmálamanna að þakka sjálfum sér og kenna öðrum um. Eftir stendur að þessi hæstv. ríkisstjórn hefði ekki skilað afgangi árið 2011 og sú ríkisstjórn sem þá sat mundi ekki skila hallarekstri núna árið 2015, hvað þá 2016. Það á ekki að koma neinum á óvart, það á ekki að hneyksla neinn, maður les þetta úr tölunum og þetta er enn fremur eðli hagsveiflna. Þegar það kemur kreppa og jafnvel hrun tekur efnahagurinn við sér fyrr eða síðar. Því finnst mér mikilvægt að halda til haga, vegna þess að það er tilhneiging meðal stjórnmálamanna að halda að þeir stjórni því hvernig hagkerfið virki. Þeir hafa vissulega áhrif og bera þá ábyrgð að vera búnir undir skakkaföll og geta haft umhverfið þannig að það heppnist sem best.

En þegar allt kemur til alls er hagkerfið stærra og viðameira og alþjóðlegra en svo að einstaka ríkisstjórn, og hvað þá einstaka stjórnmálamenn, geti þakkað sjálfum sér fyrir það hvernig hagkerfið í heild funkerar hverju sinni. Það eru miklu flóknari öfl að verki en að svo sé. Þetta held ég að hv. þingmenn og ráðamenn almennt skilji og viti mætavel og mundu sennilega ekki einu sinni mótmæla því hér.

Þetta er eitthvað sem mér finnst mikilvægt að koma á framfæri. Mér finnst í raun og veru ótrúlegt eftir það sem skall á þjóðinni og heiminum öllum árið 2008 að einungis fjórum árum eftir hrun sé ríkissjóður hættur að skila halla. Mér finnst það stórmerkilegt út af fyrir sig. Það er betra en ég bjóst við þegar hrunið átti sér stað, ef ég á að segja alveg eins og er. Vel á minnst er það ekki satt sem var sagt eftir hrun, að enginn hefði getað séð hrunið fyrir. Ég sá hrunið fyrir, allir sem ég veit um sem höfðu hundsvit á peningastefnu og peningamálum, ekki mikið vit einu sinni, bara eitthvert, og fylgdust pínulítið með vissu að það væri í aðsigi. Það sem gerðist fyrir hrun var í einu orði lánafyllerí. Það er það sem það var. Og ég óttast að ef við tökum okkur til og fögnum óspart og linnulaust gleymum við því að þótt núna sé aukinn hagvöxtur, betri afkoma ríkissjóðs — sem er gleðiefni því að vissulega er bjartara en það var fyrir fjórum árum — verðum við að vera viðbúin kvöldinu. Við verðum að vera viðbúin þegar næsta áfall kemur. Ég hef staðið hér og sagt að það komi önnur kreppa, það komi annað hrun fyrr eða síðar, og það varð af einhverjum ástæðum fréttaefni. Með leyfi forseta: „Helgi lofar öðru hruni.“

Þetta þótti fréttnæmt. En ef ég segi að það verði annar jarðskjálfti efast enginn. Það er enginn hissa. Það verður annað eldgos, það verða fleiri sjúkdómar. Hlutir munu koma fyrir, hlutir sem við getum ekki séð fyrir, við vitum aðeins að við getum ekki séð þá fyrir.

Það er þess vegna sem mér finnst allt tal um áframhaldandi langtímastöðugleika, hvað þá langtímahagvöxt, sem eru góð og gild markmið í sjálfu sér, missa marks að því leyti að við getum ekki gert ráð fyrir langtímastöðugleika og langtímahagvexti. Við þurfum að gera ráð fyrir jarðskjálftum, við byggjum húsin okkar þannig að þau þoli einhvern skjálfta ef við mögulega getum. Við búum til viðbragðsáætlanir sem taka við þegar eitthvað bjátar á. Það er bara almenn skynsemi.

Ef maður talar hins vegar um að það verði aftur hrun og að fyrr eða síðar munum við komast í fjárhagslegar ógöngur, enn og aftur, er það ýmist kallað bölsýni eða jafnvel, eins og var oft talað fyrir hrun, að tala efnahaginn niður. Það er einhver óábyrgasta orðræða sem ég veit til þess að hafi farið fram á hinu háa Alþingi og er þó af nógu að taka, eins og menn þekkja.

Þetta eru þau viðvörunarorð sem ég mundi helst vilja setja fram sem oftast þar til að við komum á fyrirkomulagi þar sem við gerum ráð fyrir skakkaföllum, þar sem við spyrjum okkur: Hvernig mundum við bregðast við og hvernig gætum við brugðist við ef hér yrði hrun eftir tvö ár, ekki vegna þess að hagstjórnin hafi mistekist heldur vegna þess að við búum í stórum og flóknum og sífellt hraðbreytilegri heimi sem við getum ekki séð fyrir hvernig muni þróast? Við vitum ekki hvernig fjármálakerfi erlendis munu þróast með tímanum, við vitum ekki hvað verður um olíuverð, við vitum ekki hvað verður um þessa stóru hagfræðilegu þætti þannig að við verðum að vera undirbúin.

Og núna er tíminn, virðulegi forseti, þegar það gengur vel. Það er einmitt þá sem við eigum að vera að velta fyrir okkur svörtustu myndinni, þegar við höfum tækifæri til þess að undirbúa okkur fyrir seinni tíma skakkaföll hvað best.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta efni að þessu sinni. Eitt sem ég tek alltaf eftir þegar fjárlagafrumvarpið er gefið út er framsetningin á því. Kannski ég fjalli aðeins efnislega um þann lið sem mér er hvað hugleiknastur þessa dagana, sem er umboðsmaður Alþingis. Umboðsmaður Alþingis er önnur þeirra tveggja stofnana sem heyra beint undir Alþingi, önnur þeirra er umboðsmaður Alþingis og hin er Ríkisendurskoðun, báðar eru mjög mikilvægar stofnanir til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit. Ekki aðeins á síðasta ári heldur margoft áður hefur vinna umboðsmanns Alþingis skipt lykilmáli í úrlausn og því að varpa ljósi á mjög alvarlega bresti í stjórnsýslunni. Það er mjög mikilvægt að við höfum áfram, einhvers konar tæki til þess að sjá og skilja og bregðast við. Eitt af því sem umboðsmaður Alþingis sér um er svokallaðar frumkvæðisathuganir. Frumkvæðisathuganir eru þegar umboðsmaður Alþingis tekur eftir einhverju sem virðist hafa farið úrskeiðis í stjórnsýslunni, ofarlega eða neðarlega í stjórnsýslunni, skiptir engu máli, og kannar það fyrir hönd Alþingis, fyrir hönd þeirra þingmanna sem hér sitja og auðvitað alþýðunnar í kjölfarið. Í þessu fjárlagafrumvarpi fæ ég ekki betur séð en að fjárlög til umboðsmanns Alþingis hækki um 28 milljónir, sem er auðvitað skárra en ekki neitt en það er hins vegar tala sem einungis nær upp í eðlilegar launaþróanir og álíka, umboðsmaður Alþingis líður enn þá allt of mikinn fjárskort og vissulega of mikinn til þess að geta áfram sinnt fyrrnefndum frumkvæðisathugunum. Sem dæmi er umboðsmaður Alþingis ekki með aðgengi fyrir fatlaða. Þetta er ein helsta eftirlits- og aðhaldsstofnun landsins og vissulega Alþingis.

Þetta er vitaskuld algjörlega ótækt og mér þykir mjög mikilvægt að ef Alþingi er annt um hlutverk umboðsmanns Alþingis sé það kýrskýrt að verkefni umboðsmanns Alþingis sé skýrt og það sé fjármagnað í takt við það skýra hlutverk.

Fram að árinu 2011 komu að meðaltali 300 mál á ári til umboðsmanns Alþingis frá borgurum landsins. Núna eru þau um 500, þannig að álagið hefur stóraukist. Til þess að takast á við álagið þarf auðvitað auknar fjárveitingar. Að mínu mati er stór ástæða fyrir þessu aukna álagi og hún er einfaldlega sú að umboðsmaður Alþingis hefur staðið sig með afbrigðum vel í mjög langan tíma. Hann nýtur gríðarlega mikils trausts, enda er hann mjög mikilvægur og það sást ekki hvað síst á síðasta ári. Ef Alþingi Íslands ætlar að nota þessa stofnun til að hafa aðhald og eftirlit með framkvæmdarvaldinu verður fjármögnunin að vera trúverðug. Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað sagt nefndum og þingmönnum og öllum sem á hann vilja hlusta að hann geti ekki sinnt þessu starfi, sem er frumkvæðisathuganir, nema hann fái til þess meira fjármagn. Það er ekki mikið fjármagn, það eru um 15 milljónir eða svo sem er dropi í hafið í samhengi fjárlaga. Þessi gríðarlega mikilvæga stofnun getur haldið uppi starfsemi sinni fyrir afskaplega lítið fé og mér þykir algjörlega sjálfsagt að við svörum því kalli á jákvæðan hátt.

Síðast en ekki síst ætla ég út í framsetningu fjárlagafrumvarpsins sem ég hef rætt hér margoft áður og þreytist ekki á að ræða fyrr en það hefur verið lagað. Þegar kemur að framsetningu fjárlagafrumvarps almennt verður að segjast eins og er að hún virðist taka því sem gefnu að þetta séu þessar bækur og maður eigi að fletta þessum blaðsíðum og yfirstrika með litatússi og stimpla inn í reiknivél o.s.frv. Þetta er góðra gjalda vert, þetta er alveg nógu gegnsætt í prinsippinu en hins vegar eru tækifæri til þess að gera alla umfjöllun um meðhöndlun útreikninga á fjárlagafrumvarpi mun betri, í einu orði: Betri. Það er með því að setja gögnin fram á þann hátt að auðveldara sé að nota þau með tölvum, setja þau fram á tölvutæku formi þannig að hvaða fólk sem er úti í bæ geti notað gögnin og sett þau fram á nýjan hátt. Þegar það er gert, þegar gögn eru sett fram á tölvutæku formi og dreift opinberlega gerist það sjálfkrafa, virðulegi forseti, án atbeina ríkisvaldsins og án atbeina þingmanna að fólk úti í bæ með einhverja tölvukunnáttu, ekki endilega mikla heldur einhverja, tekur gögnin og býr til eitthvað úr þeim sem er miklu gagnlegra fyrir almenning en doðranturinn sem við fáum í byrjun þings. Eitt besta dæmið um þetta er hvertferskatturinn.is sem er mjög mannleg nálgun á það hvert skattpeningar fara. Þetta er unnið úr hráum gögnum sem kannski flestir skilja ekkert í en einstaka tölvunörd úti í bæ skilur mjög auðveldlega og getur mjög auðveldlega notað. Enginn borgaði neinum fyrir að búa hvertferskatturinn.is til. Það var engin nefnd, það var ekkert verkefni, það var engin þingsályktun, þetta bara gerðist. Það eina sem þurfti voru gögnin sjálf á hráu sniði. Ef fjárlögin væru sett fram á þennan hátt, með tilhlýðilegum tölum á borð við verðbólgu og verðþróun af ýmsu tagi, mundi þetta gerast sjálfkrafa, ég fullyrði það. Ég fullyrði að það mundi gerast sjálfkrafa. Það er nógu margt fólk úti í bæ með nógu mikla tölvu- og forritunarkunnáttu til að taka þessi hráu gögn og gera úr þeim eitthvað sem almenningur á auðveldara með að skilja, fjölmiðlar eiga auðveldara með að kryfja, þingmenn eiga auðveldara með að ræða og hv. fjárlaganefnd ætti auðveldara með að breyta á vitrænan hátt.

Það er í raun og veru skrýtið að þurfa að halda slíka ræðu aftur og aftur árið 2015 en að því sögðu hef ég aldrei heyrt neina andstöðu við þessar hugmyndir. Þá velti ég fyrir mér hvers vegna þetta sé svona. Hvers vegna er ekki einu sinni yfirlit með fjárlögum? Hvað er það? Það er eins og þetta sé gert svona flókið til þess að manni líði svolítið eins og maður gæti ekki mögulega skilið það, nema einn eða tvo liði í einu. Það finnst mér skrýtið, mér finnst það óþarft, mér finnst það ómálefnalegt.

Kannski er þetta vegna þess að kerfið eða einhverjir innan þess hafa einfaldlega ekki tekið það að sér að reyna að uppfæra þetta með einhverjum hætti, að gera það betra. Kannski er það ástæðan, ég ætla ekki að álasa neinum fyrir það, þetta er bara eitthvað sem við ættum að gera og þurfum að gera og mundi bæta starfið hér í kringum fjárlögin ansi mikið.

Það er í sjálfu sér ekki meira efnislega sem mig langar að fjalla um að þessu sinni, enda á ég einungis rétt rúma mínútu eftir af tíma mínum, en auðvitað tek ég meiri efnisumfjöllun um frumvarpið í 2. umr. eftir að hafa haft meira tækifæri til að grufla í þessum annars ágæta doðranti. Ég lýk ræðu minni á þeim orðum, virðulegi forseti.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.