145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var líka eitt af því sem komið var hér inn á, þ.e. flugvöllurinn á Gjögri. Eins og hv. þingmaður hefur kannski tekið eftir voru 500 millj. kr. sem ætlaðar voru í þau verkefni teknar út úr því fjárlagafrumvarp sem við fjöllum um núna. Þess vegna er mjög mikilvægt að mínu mati að fjárlaganefnd kalli strax eftir því við vinnuna, af því að hæstv. fjármálaráðherra svaraði því ekki þrátt fyrir að ég spyrði um það í ræðu minni, hvort farið yrði í þessar framkvæmdir núna á haustdögum eða hvort það yrði að einhverju leyti tryggt að þeir fjármunir færu í þau verkefni. Það er afar sérstakt, ef búið er að samþykkja 500 millj. kr. og einhverra hluta vegna hefur ekki verið tækifæri til að fara í þá velli, að það verði þá bara ekki gert af því að fjármunir verða ekki settir í það. Ég veit að þeir frá Húsavík eru búnir að láta heyra í sér og eru ekki sáttir við það ef ekki á að fylgja þessu eftir. Þannig að ég treysti því sem hv. þingmaður sagði, við erum sammála um margt sem lýtur að þessum málum — ég sé að hv. formaður fjárlaganefndar er hér — og að eftir þessu verði kallað og ég bið hann um að gera það, að við fáum stöðu á þetta hið fyrsta.

Svo langaði mig aðeins að spyrja hvað þingmanninum finnst um útgjöld til framhaldsskóla, af því að við erum á þeim svæðum þar sem sett eru upp þessi margvíslegu úrræði. Nú er verið að lækka útgjöld til framhaldsskóla að raunvirði um milljarð í ofanálag við það sem áður var gert. Búið er að skerða tækifærin eins og við höfum margrætt og höfum þurft að berjast fyrir öllum útstöðvum. Telur hv. þingmaður að það sé ásættanlegt og telur hann að allar þessar litlu dreifnámsstöðvar haldi sér inni áfram?