145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að uppgjörum þrotabúa föllnu bankanna þá var um það full samstaða hér í þingsal og í efnahags- og viðskiptanefnd hvernig tekið yrði á þeim málum. Það liggur algerlega ljóst fyrir að núverandi ríkisstjórn er að sækja og mun sækja, hvort sem það verður í formi stöðugleikaframlags eða stöðugleikaskatts, hundruð milljarða inn í fjármálakerfið.(Gripið fram í.)

Það liggur líka ljóst fyrir að allar tillögur ríkisstjórnarinnar fara fyrir Seðlabanka, ríkisstjórn og efnahagsnefnd Alþingis. Þetta kom ég inn á þegar málið var afgreitt og gerði það reyndar líka í stefnuræðu hér fyrir nokkrum dögum. Það liggur ljóst fyrir að núverandi ríkisstjórn er að sækja fjármagn til kröfuhafa föllnu bankanna eins og hún talaði um fyrir síðustu þingkosningar, sem margir sögðu að væri ekki mögulegt, ólíkt fyrri ríkisstjórn sem var einkum og sér í lagi í því allt síðasta kjörtímabil að reyna að þjóðnýta skuldir þrotabúa og föllnu bankanna. (Forseti hringir.)

Varðandi spurninguna um samgöngumál o.fl. verð ég að koma inn á það í seinna andsvari mínu en ég mun ekki skorast undan því þá.