145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hrunið er stundum kallað forsendubresturinn af hv. framsóknarmönnum. Ég hef stundum spurt að því hvaða forsendubrest menn eigi við, þá eiga menn við það verðbólguskot sem átti sér stað þrátt fyrir að þær forsendur lægju alveg fyrir í öllum þeim lánasamningum þar sem verðtrygging var til staðar. Gott og vel.

Í kjölfar hrunsins vilja menn gjarnan meina að enginn hefði séð það fyrir, sem er rangt. Það voru margir sem sáu hrunið fyrir. Núna óttast ég að fordæmið að kalla þetta forsendubrest geri að verkum að menn líti á hrun eða kreppu sem eitthvað sem geti ekki gerst aftur.

Mig langar svolítið að heyra viðhorf hv. þingmanns á því hvernig við búum þannig um að við séum reiðubúin fyrir frekari skakkaföll í hagkerfinu og þar af leiðandi ríkissjóður.