145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi málskostnað í opinberum málum. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að sá liður hefur ítrekað farið fram úr áætlun og er það ekki síst vegna þess að nokkuð erfitt hefur verið að spá fyrir um hvernig hann þróast. Við höfum ekki stjórn á málaflokknum, hann lýtur lögmálum dómstólanna. Ráðuneytið getur ekkert annað en reynt að giska sæmilega skynsamlega hvaða fjármuni þurfi í þetta og það hefur ekki tekist nógu vel.

Hér er um verulega aukningu að ræða vegna þess að í þetta skiptið er það vilji okkar að reyna að ná betur utan um þetta. Ég tel því að þetta séu miklu raunsærri tölur en við höfum séð undanfarin ár, enda töluvert mikil aukning.

Við búum við það í innanríkisráðuneytinu að vera með liði sem við höfum oft illa stjórn á. Ég veit að við erum ekki alltaf uppáhaldsráðuneytið í hv. fjárlaganefnd, enda hvíla á okkur verkefni sem erfitt er að spá fyrir um. Þetta er einn af þeim liðum. Við höfum farið yfir hælisleitendamálið. Það er svo sannarlega annar slíkur liður. Við skulum ekki gleyma í því sambandi vetrarþjónustunni, sem keyrir verulega fram úr. Ég mæli fyrir verulegri aukningu til vetrarþjónustunnar í þessum fjárlögum upp á 1.800 millj. kr., hvorki meira né minna. Meðan þeir fjármunir eru til viðbótar í vetrarþjónustu er augljóst að þeir fara ekki í aðrar framkvæmdir. Á sama tíma leggjum við Íslendingar áherslu á að fólk sé öruggt í heimabyggð sinni, hvort sem það býr á suðvesturhorninu eða ekki, en þar er vetrarþjónustan langdýrust, við skulum ekki gleyma því, langmest fé fer til vetrarþjónustu í kringum höfuðborgarsvæðið. Umræðan hér er oft á þann hátt að hún sé mest í dreifðustu byggðunum en það að halda uppi þjóðvegaleiðunum út úr höfuðborginni tekur að sjálfsögðu mest fé til sín, það er gott fyrir þingmenn að hafa hugfast í þessari umræðu. En það þarf líka að moka í Norðurfirði á Ströndum, (Forseti hringir.) það þarf líka að passa upp á og við gerum það. (Forseti hringir.)

Ég verð að fá að koma að neytendamálunum síðar.