145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þegar maður hittir fólk úti um land, íbúa dreifðustu byggða landsins, áttar maður sig mjög fljótlega á því að samgöngumál og fjarskiptamál eru mikilvægustu velferðarmálin, byggðin hvílir algjörlega á þessum tveimur þáttum, uppbygging ferðaþjónustu í héraði og uppbygging atvinnulífs almennt, að ég tali ekki um þá staðreynd að þar sem krakkarnir eru farnir í nám til þéttari byggða þurfa þau að geta komið heim um helgar og haldið áfram að sinna námi sínu. Sums staðar eru svo slök fjarskipti að þau geta ekki komið heim, ekki einu sinni um helgar. Þegar hæstv. ráðherra segir að það sé allt í lagi að vera þolinmóður í þessum málum er það örugglega rétt að einhverju leyti en samt er það þannig víða úti um land að byggðirnar eru orðnar mjög veikar og þurfa að minnsta kosti á skýrari pólitískum skilaboðum að halda en þeim að fólk eigi að sýna þolinmæði að því er varðar að bæta samgöngur og fjarskipti.

Ég hef líka mjög miklar áhyggjur af viðhaldi á vegum. Þá er ég ekki bara að tala um þá fjölförnustu, heldur ekki síður þá sem leiða í fjarlægari, fáfarnari og fámennari byggðir. Mér finnst eins og það skorti á að það sé gefið í í því, ég held stundum að stjórnmálamennirnir séu uppteknir af nýframkvæmdum en heimamennirnir af viðhaldinu. Borðar eru ekki klipptir þegar snjór er mokaður þannig að það er kannski ekki alveg jafn mikil spenna fyrir því hjá okkur stjórnmálamönnunum, en það verður að sinna þeim samgöngumannvirkjum sem þó eru fyrir hendi. Ég fagna þó orðum hæstv. ráðherra um samstillingu samgangna (Forseti hringir.) og uppbyggingar ferðaþjónustunnar.