145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er mikið ánægjuefni að þrátt fyrir þá erfiðu tíma sem eru núna og lúta að ástandinu í Sýrlandi að augu almennings eru að opnast fyrir því um hvað þetta snýst. Þetta snýst um mannúð og þetta snýst um að við þurfum oft að pína okkur til að sjá hlutina eins og þeir eru til að geta brugðist við og fundið mannúðina í okkur til að stíga þetta aukaskref. Það er almenningur að gera. Í raun og veru hefur almenningur á Íslandi stigið þetta aukaskref. Þá er komið að okkur sem erum hér.

Alþingi fer með valdið er lýtur að fjárlögunum á endanum þannig að ég vil brýna líka fyrir Alþingi að standa þétt um þennan fjárlagalið svo að við lendum ekki í því að missa tökin á þessu. Það væri hræðilegt, þetta er í það góðum farvegi. Ég verð bara að segja að ég er svo óendanlega þakklát fyrir að þessi vinna var komin eitthvað áleiðis áður en við fengum þessa bylgju. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða og jafnframt hv. fjárlaganefnd. Ég veit að það er óvenjumikil þekking á þessu þingi á þessum tiltekna málaflokki. Auðvitað er mjög margt í ráðuneyti hæstv. ráðherra sem þarf að huga jafnframt að og margir málaflokkar sem hafa verið sveltir um nokkurn tíma. Ég vil bara óska hæstv. ráðherra velfarnaðar í að vinna úr öllum þeim flóknu málum sem eru á borði ráðherrans.